Erlent

Fórnar­lömbin há­skóla­nemar og maður á sex­tugs­aldri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið að rannsókn bifreiðarinnar.
Unnið að rannsókn bifreiðarinnar. PA/AP/Zac Goodwin

Einstaklingarnir þrír sem stungnir voru til bana í Nottingham í gær voru maður á sextugsaldri og tveir 19 ára nemar við Nottingham University. Lögregla hefur 31 árs gamlan mann í haldi grunaðan um verknaðinn og telur ekki að aðrir hafi átt þátt að máli.

Eftir að maðurinn stakk fólkið virðist hann hafa rænt bifreið eldri mannsins og ók henni skömmu síðar á fólk sem var að bíða eftir strætó. Þrír slösuðust og einn af þeim er sagður í lífshættu.

Lögreglu barst tilkynning um stunguárás rétt fyrir klukkan fjögur í gærmorgun og fann unga fólkið við Ilkeston Road, norðvestur af miðbænum. Skömmu síðar fannst maðurinn látinn við Magdala Road og virðist sem árásarmaðurinn hafi stolið af honum hvítum sendiferðabíl.

Bílnum var ekið á hóp fólks við strætóbiðstöð nálægt Theatre Royal um klukkan 5.30.

Nemendurnir sem létust voru Barnaby Webber og Grace Kumar, sem spilaði með unglingalandsliði Bretlands í hokkí. Útskriftardansleik sem átti að fara fram á fimmtudagskvöld hefur verið aflýst.

Árásarmaðurinn var skotinn með rafbyssu og handtekinn eftir síðari árásina. Lögregla segist nú leita að farsímum og/eða tölvum sem hann kann að hafa átt og gætu varpað ljósi á atburðina.

Íbúar í Nottingham eru sagðir í nokkru uppnámi eftir árásirnar en lögregluyfirvöld hafa gefið út að þau telja ekki frekari hættu á ferð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×