Innlent

Hreinn að­stoðar­maður á ný í dóms­mála­ráðu­neytinu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hreinn Loftsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra.
Hreinn Loftsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra. Stjórnarráðið

Hreinn Loftsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hreinn aðstoðar í dómsmálaráðuneytinu en hann aðstoðaði einnig síðustu tvo ráðherra í ráðuneytinu.

Hreinn aðstoðaði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í rúm tvö ár í hennar tíð sem dómsmálaráðherra. Þegar Jón Gunnarsson tók við ráðuneytinu af Áslaugu bauð hann Hreini að aðstoða sig í embættinu. Hreinn tók boðinu en aðeins tveimur vikum síðar greindi hann frá því að hann hafi verið of fljótur á sér.

Hreinn tók svo tímabundið við starfi aðstoðarmanns Áslaugar Örnu á ný en þá í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu. Hreinn vann einnig sem aðstoðarmaður ráðherra í viðskipta-, utanríkis- og samgönguráðuneytunum á árunum 1983 til 1988 og í forsætisráðuneytinu árin 1991 til 1992.

Hreinn lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1983, var við framhaldsnám í Oxford 1984 til 1985 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1988 og Hæstarétti árið 1993. 

Hann var sjálfstætt starfandi lögmaður á árunum 1988 til ársins 1991 og frá árinu 1992 til ársins 2019. Samkvæmt tilkynningu á vef Stjórnarráðsins hefur hann einnig setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og átt sæti í ýmsum stjórnum og nefndum, auk starfs á vettvangi stjórnmála.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×