Fótbolti

Hegerberg spurð út í skrópin hjá Haaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg vildi ekki láta hafa neitt eftir sér um Erling Braut Haaland.
Ada Hegerberg vildi ekki láta hafa neitt eftir sér um Erling Braut Haaland. Getty/David Horton

Norðmenn eiga tvo af bestu framherjum heims, Ödu Hegerberg í kvennaflokki og Erling Braut Haaland í karlaflokki. Norska kvennalandsliðið hefur hins vegar gert miklu betri hluti en karlaliðið og það lítur út fyrir að það sé farið að pirra Haaland verulega.

Næst á dagskrá hjá norska kvennalandsliðinu er heimsmeistarakeppnin í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Ada Hegerberg mætti á blaðamannafund í aðdraganda heimsmeistaramótsins en hún snéri aftur í landsliðið í mars í fyrra eftir fimm ára fjarveru.

Hún var spurð út í hegðun Haaland í síðasta verkefni karlalandsliðsins. Norska ríkisútvarpið segir frá.

Norska karlalandsliðið var þá í fínum málum og yfir í mikilvægum heimaleik á móti Skotum þegar Haaland var tekinn af velli. Skotarnir tryggðu sér sigur með tveimur mörkun í blálokin.

Eftir leikinn neitaði Haaland að tala við blaðamenn og fékk leyfi frá landsliðsþjálfaranum Ståle Solbakken til að skrópa í viðtölin. Reglur UEFA segja að leikmenn verði að ræða við fjölmiðlamenn eftir leiki.

Norsku fjölmiðlamennirnir fögnuðu því að sjá Hegerberg í viðtölum en spurðu hana líka út í skrópin hjá Haaland.

„Ég hef gengið í gegnum ýmislegt varðandi fjölmiðla á mínum ferli. Það hefur verið góð upplifun líka. Þetta snýst um að auglýsa íþróttina okkar. Þið hafið mjög mikilvægt hlutverk í því líka. Þess vegna er það mikilvægt fyrir mig að þið hafið ykkar aðgengi og að þið farið með það af fagmennsku,“ sagði Ada Hegerberg.

En hvað fannst henni um hegðun Haaland og það hvað hann sleppur mikið við fjölmiðlaskyldur sínar?

„Hvaða skoðun hef ég á því? Ég hef eiginlega ekkert um það að segja og það er ekki mikilvægt málefni til að ræða. Varðandi mig sjálfa þá tel ég það mikilvægt að eiga virðingarvert samband við fjölmiðla,“ sagði Hegerberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×