Íslenski boltinn

„Þessi deild er bara klikkuð“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Todor Hristov, þjálfari ÍBV.
Todor Hristov, þjálfari ÍBV. Vísir/Hulda Margrét

Todor Hristov, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur síns liðs á Þór/KA á Akureyri í Bestu deild kvenna í dag.

ÍBV vann leikinn 2-0 með mörkum í síðari hálfleik frá Holly Taylor Oneill og Olgu Sevcova og lyftir sér úr fallsæti með sigrinum.

Hvernig líður Todor með sigurinn?

„Mjög vel. Þór/KA er með mjög gott lið og þetta er reyndar eitt af toppliðunum eins og staðan er í deildinni og það er frábært að fara héðan með þrjú stig.“

„Mér fannst þetta flottur leikur hjá okkur. Við vorum búin að skipuleggja leikinn svolítið vel en við gerum það alltaf en stundum gengur það ekki eins vel og í dag en ég er mjög ánægður að sjá að það gekk vel í dag.“

Allir þrír erlendu leikmenn Þór/KA voru fjarverandi í dag vegna landsliðsverkefna; Tahnai Annis, Dominique Randle og Melissa Lowder. Hjálpaði það ÍBV í dag að Þór/KA skyldi vera án þessara lykilleikmanna?

„Já það er alltaf plús fyrir okkur þegar hitt liðið er að missa lykilleikmenn þannig ég get sagt já.“

Nú tekur við mánaðar hlé á Bestu deildinni vegna heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu. Hvernig hyggst Todor nýta hléið?

„Það er svolíti blandað hjá okkur. Hópurinn hjá okkur er þannig að við erum með margar stelpur úr 2. flokki þannig það eru leikir hjá 2.flokk. Sumar þurfa smá pásu og hvíld þannig við ætlum svolítið að blanda þessu en ég held að það sé bara mjög spennandi þó að við fáum frí núna en það er ekki alveg þannig, við erum bara áfram að vinna með hópinn sem er til.“

ÍBV fer með sigrinum upp fyrir Tindastól og Keflavík og mun sitja í 7. sæti deildarinnar á meðan á landsleikjapásunni stendur.

„Það er 100 prósent jákvætt ég ætla að vera hreinskilinn en ég var aldrei farinn það langt að hugsa um eitthvað fallsæti og þið sjáið sjálfir að þessu deild er bara klikkuð og ég er að meina þetta í góðu að allir geta unnið alla. Það er svolítið snemmt að fara í einhverja svona hugsun þannig ég var aldrei þar til að vera hreinskilinn en samt er það gott“, sagði Todor að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×