Innlent

Hringdi 237 sinnum á Neyðarlínu og hafnað um miskabætur

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá höfuðstöðvum Neyðarlínunnar.
Frá höfuðstöðvum Neyðarlínunnar. vísir/vilhelm

Íslenska ríkið hefur verið sýknað af miskabótakröfu manns sem var handtekinn eftir að hafa hringt 237 sinnum að ástæðulausu í neyðarlínu. Hann var sjálfur talinn hafa valdið aðgerðum lögreglu.

Að kvöldi 23. desember 2020 hringdi maðurinn,  sem er erlendur ríkisborgari, 237 sinnum á sólarhring í símanúmer Neyðarlínunnar 112, án þess að um neyðartilvik eða erindi við viðbragðsaðila væri að ræða. Lögregla hringdi í manninn í þeim tilgangi að fá hann til að láta af hringingunum, en án árangurs. Svo fór að maðurinn var handtekinn aðfararnótt aðfangadags og fluttur á lögreglustöð.

Maðurinn kaus að tjá sig ekki í skýrslutöku um erindi sitt við Neyðarlínuna og í maí 2021 var rannsókn lögreglustjóra á málinu hætt. Í ágúst sama ár krafðist maðurinn miskabóta úr hendi ríkisins vegna aðgerða lögreglu í málinu. Ríkislögreglustjóri hafnaði greiðslu miskabóta og taldi að maðurinn hafi sjálfur orðið valdur að aðgerðum lögreglu gegn honum.

Fyrirsjáanleg afleiðing

Í miskabótamálinu byggði maðurinn á því að hann hafi verið borinn sökum í sakamáli vegna máls sem var fellt niður. Hann ætti því rétt til óskertra bóta úr hendi ríkisins og krafðist einnar milljónar króna. Hann hafi hvorki brotið gegn fjarskiptalögum né öðrum lögum. 

Ríkið byggði á því að maðurinn hafi valdið þeim aðgerðum sem lögregla réðist í umrætt kvöld með því að hringja 237 sinnum að óþörfu í Neyðarlínu. Hann hafi valdið verulegri truflun á starfsemi Neyðarlínu og ekki upplýst hvert erindi hans væri. Handtakan hafi verið nauðsynleg í þágu allsherjarreglu. Grunur væri uppi um að maðurinn hafi gerst brotlegur gegn fjarskipta- og hegningarlögum með háttsemi sinni. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var talið að háttsemi mannins hafi gefið fullt tilefni til að handtaka manninn, til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Maðurinn hafi sjálfur valdið þeim aðgerðum sem hann reisti bótakröfu sína á og væri háttsemi hans orsök og fyrirsjáanleg afleiðing af háttsemi hans. Ríkið var því sýknað af kröfum mannsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×