Fótbolti

PSG opnar dyrnar að nýju og glæsi­legu æfinga­svæði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Höfuðstöðvarnar eru í 25 mínútna akstursfjarlægð frá heimavellinum Parc des Princes.
Höfuðstöðvarnar eru í 25 mínútna akstursfjarlægð frá heimavellinum Parc des Princes. Vísir/Getty

Leikmenn PSG mættu á sína fyrstu æfingu á nýju og glæsilegu æfingasvæði á mánudag. Þar er að finna sautján fótboltavelli og svæðið kostaði 300 milljón evrur að byggja.

Katarskir eigendur franska félagsins PSG hafa ekki verið feimnir að eyða peningum síðan þeir keyptu félagið árið 2011. Alls hefur félagið eytt 1,4 milljarði evra í leikmannakaup og þá eru laun leikmanna ekki með í þeirri tölu.

Eigendurnir eru hins vegar tilbúnir til að eyða í meira heldur en bara leikmenn. Á mánudag fór fyrsta æfing liðsins á nýju æfingasvæði fram og er óhætt að segja að það sé glæsilegt.

Svæðið er staðsett í hæðum við ánna Signu og þangað er 25 mínútna akstur frá heimavellinum Parc des Princes. Svæðið nær yfir 74 hektara og þar eru hvorki fleiri né færri en 17 fótboltavellir. Lið PSG í öllum íþróttum munu nýta sér æfingasvæðið og verður þetta í fyrsta sinn sem bæði knattspyrnulið félagsins, akademían, handboltaliðið og júdódeildin verður undir sama þaki.

Þeir leikmenn PSG sem eru komnir úr sumarfríi hófu æfingar á mánudag en Kylian Mbappe og fleiri stjörnur mæta í fyrsta skipti á þriðjudag. Kvennaliðið hefur æfingar á svæðinu á næsta ári.

Luis Enriqe fyrsti næturgesturinn

Á æfingasvæðinu er allt til alls. Í næstu viku byrjar liðið að nota þrjá æfingavelli auk sérstakra markmanns- og æfingasvæða. Grasið á völlunum er svokallað hybrid-gras, blanda af náttúrulegu- og gervigrasi sem er eins og á heimavellinum Parc des Prinses. Á einum æfingavellinum er stúka fyrir 500 áhorfendur.

Við hlið sjálfs æfingasvæðisins er síðan 10.000 fermetra bygging með glæsilegu útsýni yfir æfingavellina og sveitina í kring. Þar má finna fjórar sundlaugar, fyrsta flokks líkamsrækt, veitingastað, búningsklefa, sjúkraherbergi og myndbands- og greiningaraðstöðu.

Þar eru einnig 43 svefnherbergi þar sem leikmenn og annað starfsfólk getur gist, meðal annars daginn fyrir og eftir leik.

„Ég held ég sé sá  fyrsti til þess að sofa hérna,“ sagði Luis Enrique sem nýverið tók við sem knattspyrnustjóri PSG.

„Æfingasvæðið er stórkostlegt. Þægilegt en ekki of íburðarmikið. Þú þarft að leggja á þig til að vinna leiki en aðstæðurnar hér eru frábærar.“

Þá er ótalið svæði akademíunnar, kvennaliðsins og aðrar byggingar. Akademían fær 16.500 fermetra byggingu fyrir sig þar sem meðal annars eru 15 skólastofur og aðstaða fyrir 140 unga leikmenn á aldrinum 13-19 ára, meðal annars 131 svefnherbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×