Fótbolti

Hákon Arnar kynntur til leiks með eld­fjalla­mynd­bandi: Fær sjöuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar er mættur til Lille.
Hákon Arnar er mættur til Lille. Lille

Franska efstu deildarliðið Lille hefur kynnt Hákon Arnar Haraldsson til leiks. Hann kemur frá Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahafnar en er uppalinn hjá ÍA á Akranesi. Engu var til sparað í kynningunni og þá mun Hákon Arnar klæðast treyju númer 7 hjá félaginu.

Fyrr í dag var greint frá því að Lille væri loks að ganga frá kaupunum á Hákoni Arnari. Þar kom fram að hann væri á leið í læknisskoðun og að henni lokinni myndi hann skrifa undir. 

Danski miðillinn BT Sport sagði kaupverðið væri 17 milljónir evra eða 2,5 milljarðar íslenskra króna. Samkvæmt heimildum Vísis fær ÍA, uppeldisfélag Hákons Arnar, 20 prósent af þeirri upphæð eða 500 milljónir íslenskra króna.

Lille hefur nú staðfest komu Skagamannsins og vekur athygli að hann er kynntur til leiks sem miðjumaður en Hákon Arnar spilaði að mestu sem fremsti maður hjá FC Kaupmannahöfn á síðustu leiktíð.

Í kynningarmyndbandinu er síðan myndefni af eldgosi á Íslandi og svo leikmönnum Lille að fagna sigri í frönsku úrvalsdeildinni vorið 2021. Einnig kemur fram að samningur hans við félagið gildir til ársins 2028 sem og Hákon Arnar kynnir sig með nafni. Þá kemur í ljós að hann verður í treyju númer 7 hjá félaginu.

Hákon Arnar er tvítugur að aldri og hefur spilað 11 A-landsleiki. Hann hefur spilað með aðalliði FCK undanfarin tvö tímabil, unnið dönsku úrvalsdeildina bæði árin sem og danska bikarinn á síðustu leiktíð. Þá lék hann með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð og skoraði meðal annars sitt fyrsta mark í keppninni gegn Borussia Dortmund.

Lille endaði í 5. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar og tekur þátt í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×