Fótbolti

Flugu beint frá Akureyri til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA fagnaði vel sigrium á  Connah's Quay Nomads í fyrri leiknum.
KA fagnaði vel sigrium á  Connah's Quay Nomads í fyrri leiknum. Vísir / Diego

KA og velska félagið Connah's Quay Nomads eiga það sameiginlegt að spila heimaleiki sína í Evrópukeppninni ekki á sínum vanalega heimavelli.

KA menn eru komnir til Bretlands þar sem þeir mæta velska liðinu í undankeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld.

Athygli vekur að KA liðið flaug beint frá Akureyri til Liverpool.

Oft hafa norðanliðin þurft að ferðast í fimm tíma suður til Keflavíkur áður en flogið var út en leikmenn KA sluppu við það að þessu sinni.

Það er síðan ekki mjög langt frá John Lennon flugvellinum í Liverpool suður til Oswestry þar sem leikurinn fer fram.

KA er í góðum málum eftir 2-0 sigur á Connah's Quay Nomads í fyrri leiknum sem fór reyndar ekki fram á Akureyri heldur í Grafarholtinu.

Leikurinn annað kvöld fer fram á Park Hall sem er í Englandi en ekki í Wales.

Nomads liðið þarf eins og KA að spila leikinn annars staðar en á heimavelli sínum út af kröfum UEFA um leikvelli í Evrópukeppni en leikurinn fer fram á heimavelli The New Saints liðsins.

Þrátt fyrir að leikurinn fari fram í Englandi þá er mjög stutt í landamærin og þar með yfir til Wales.

Connah's Quay Nomads spilar vanalega heimaleiki sína í Flint sem er við norðurströnd Wales. Þeir þurfa aftur á móti ekki að ferðast eins langt og KA-menn þurftu að gera í heimaleikinn sinn.

Leikur Connah's Quay Nomads og KA hefst klukkan 18.00 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×