Fótbolti

Neymar ætlar að vera áfram hjá PSG þrátt fyrir mótmæli stuðningsmannanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar er byrjaður að æfa aftur.
Neymar er byrjaður að æfa aftur. getty/Paris Saint-Germain Football

Þrátt fyrir að hópur stuðningsmanna Paris Saint-Germain vilji losna við hann verður Neymar áfram hjá frönsku meisturunum.

Hópur stuðningsmanna PSG söfnuðust saman fyrir utan heimili Neymars fyrr á árinu og kröfðust þess að hann yfirgæfi félagið. PSG fordæmdi hegðun stuðningsmannanna.

Neymar lætur ósætti stuðningsmannanna ekki á sig fá og ætlar að halda kyrru fyrir hjá PSG. „Ég vonast til að spila fyrir PSG á þessu tímabili. Ég er samningsbundinn liðinu. Hingað til hefur enginn sagt mér neitt,“ sagði Brassinn.

„Ég er rólegur jafnvel þótt það sé ekki kært milli stuðningsmannanna og leikmannsins. Ég verð áfram, með eða án ástar.“

Síðasta tímabil var endasleppt hjá Neymar en hann spilaði ekkert eftir að hafa meiðst á ökkla í febrúar. Hann fór í kjölfarið í aðgerð.

Neymar sneri aftur til æfinga í síðustu viku og stefnir á að vera kominn á fulla ferð þegar tímabilið 2023-24 hefst í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×