Fótbolti

Ræddi við franska blaða­­menn: Vildi prófa stærri deild og líkar við leik­stíl Lil­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar er klár í slaginn með Lille.
Hákon Arnar er klár í slaginn með Lille. Lille

Franska úrvalsdeildarfélagið Lille kynnti Hákon Arnar Haraldsson fyrir fjölmiðlum í dag. Þar var svaraði hann hinum ýmsu spurningum, meðal annars um ákvörðun sína að fara til Lille og hvar á vellinum hann mun spila fyrir félagið.

Hákon Arnar er aðeins tvítugur að aldri en varð óvænt stjarna FC Kaupmannahafnar þegar liðið varð Danmerkurmeistari tvö ár í röð. 

Þá varð liðið bikarmeistari síðasta vor sem og Hákon Arnar stóð sig með prýði í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem FCK náði í stig gegn Sevilla, Manchester City og Borussia Dortmund. Skoraði Hákon Arnar sitt fyrsta mark í keppninni í 1-1 jafntefli gegn Dortmund.

Hann er meðal dýrustu leikmanna sem Lille kaupir en talið er að verðmiðinn sé í kringum 17 milljónir evra eða tæpur tveir og hálfur milljarður íslenskra króna.

„Fannst ég þurfa að prófa að spila í stærri deild. Ég veit ekki mikið um borgina en ég hef séð nokkra leiki með Lille og líkar vel við leikstíl liðsins, halda í boltann og pressa hátt. Það tók ekki langan tíma að taka þessa ákvörðun.“

Hákon Arnar tók einnig fram að hann hefði kynnst liðinu enn betur í gegnum tölvuleikinn FIFA sem hann spilar töluvert. Einnig kom fram að Lille ætli sér að nota hann í holunni á bakvið framherjann en Paulo Fonseca, þjálfari liðsins, stillir oftast nær upp í 4-2-3-1 leikkerfi.

Þakkar fjölskyldunni

„Fjölskyldan mín hefur spilað stórt hlutverk á ferli mínum, sérstaklega foreldrar mínir. Þá hef ég spilað mikið með bræðrum mínum. Þeir hafa hjálpað mér mikið í gegnum tíðina, “ sagði Hákon Arnar en yngri bróðir hans – Haukur Andri – skrifaði einnig undir hjá Lille. Eldri bróðir hans, Tryggvi Hrafn, er samningsbundinn Val.

„Mikill heiður sem fylgir því að vera fyrsti Íslendingurinn sem klæðist treyju Lille. Það verður enn betra þegar bróðir minn verður mér við hlið. Alltaf gaman að vera í kringum hann. Hann þarf að leggja mikið á sig til að komast í aðalliðið en ég hef mikla trú á honum.“

Franskan næst á dagskrá

„Ég skil ekki stakt orð í frönsku. Hún er mjög ólík íslensku. Þarf að læra tungumálið,“ sagði Hákon Arnar að endingu á blaðamannafundinum sem sjá má í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×