Innlent

Kæra tvo bændur fyrir að neita að af­henda kindur af bæ með riðu­smit

Eiður Þór Árnason skrifar
Sauðféð kom frá nágrannabæ.
Sauðféð kom frá nágrannabæ. vísir/vilhelm

Matvælastofnun hefur kært tvo bændur á Norðurlandi vestra til lögreglu fyrir að hundsa fyrirmæli yfirdýralæknis. Bændurnir eru sakaðir um að neita að afhenda kindur sem þeir höfðu fengið frá nálægum bæ þar sem búið var að skera niður allt sauðfé vegna riðusmits.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun en að mati sérfræðinga hennar stofna bændurnir með þessu heilsu dýra sinna í hættu og einnig heilsu sauðfjár í eigu annarra sem hefur samgang við þeirra fé. 

Á síðustu árum hafa bæði komið upp riðutilfelli í Skagafirði og Húnaþingi vestra. Hefur bændum á þeim bæjum verið gert lóga kindum sínum til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Smitefnið talið geta lifað í meira en áratug

Bændurnir eru kærðir á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þar er kveðið á um að brot gegn fyrirmælum gefnum samkvæmt dýrasjúkdómalögunum varði sektum eða allt að tveggja ára fangelsi. 

Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé sem getur leitt kindur til dauða, að því er segir á vef Matvælastofnunar. Hún veldur hrörnunarskemmdum í heila og mænu dýranna en smitefnið er hvorki baktería né veira heldur aflagað prótín. Smitefnið er talið geta lifað í umhverfi í meira en áratug og komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×