Fótbolti

Þurfa að bíta á jaxlinn gegn bein­skeyttum Írum í kvöld: „Þurfum að þora vera við sjálfir“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik KA og Connah's Quay Nomad á Framvellinum fyrr í sumar. Stuðningsmenn KA fjölmenntu á völlinn í Reykjavík.
Frá leik KA og Connah's Quay Nomad á Framvellinum fyrr í sumar. Stuðningsmenn KA fjölmenntu á völlinn í Reykjavík. Vísir/Hulda Margrét

Hall­grímur Jónas­son, þjálfari karla­liðs KA í fót­bolta er boru­brattur fyrir fyrri leik liðsins gegn írska liðinu Dundalk í 2. um­ferð undan­keppni Sam­bands­deildar Evrópu í kvöld. Norðan­menn þurfti að setja í næsta gír frá ein­vígi sínu í fyrstu um­ferðinni til að eiga mögu­leika.

Leikið verður á Framvellinum í Úlfarsárdalnum í kvöld og á Írlandi að viku liðinni. 

„Þetta leggst hrika­lega vel í okkur, þetta er flott lið sem við erum að fara mæta. Við erum á­nægðir með að hafa farið á­fram úr ein­vígi okkar við Connah's Quay Nomads og ættum að eiga fína mögu­leika ef við spilum vel á morgun.“

Ein­vígi KA við Connah's Quay Nomads, í fyrstu umferð undankeppninnar, lauk með saman­lögðum 4-0 sigri Norðan­manna.

„Núna þurfum við að spilja jafn­vel eða betur en á móti Connah's Quay. Þetta Dundalk lið er líkam­lega sterkt og á sama tíma eru þeir mjög bein­skeyttir. Við höfum skoðað þeirra leik­stíl og undir­búið okkur vel og vitum hverju við erum að fara mæta á morgun.

Það sem við þurfum að gera er að vera við sjálfir, þora að spila okkar bolta og mæta þeim í ná­vígunum. Það er lykil­at­riði fyrir okkur að fara með góða stöðu héðan úr fyrri viður­eigninni til að eiga góða mögu­leika á Ír­landi.“

Hallgrímur Jónasson er þjálfari KAHulda Margrét

Frammistaðan hingað til gefur mönnum trú

Frammi­staða liðsins yfir tvo leiki á móti Connah's Quay Nomads hlýtur að gefa liðinu sjálfs­traust fyrir komandi ein­vígi?

„Já ég er sam­mála því og maður sá það á nokkrum af þeim leik­mönnum, sem voru að spila í Evrópu­keppni í fyrsta skipti, að þeir voru að­eins meira stressaðri en í leikjum deildarinnar hér heima. Nú er það bara farið og þetta fyrsta ein­vígi liðsins gefur því trú og menn mæta klárir frá fyrstu mínútu á morgun.

Þetta Dundalk lið er gott en þetta er ekki lið sem er ó­mögu­legt að vinna. Við vitum að ef við mætum vel til leiks og spilum okkar besta leik, þá eigum við góðan mögu­leika.“

Dundalk er sem stendur í 5. sæti írsku úr­vals­deildarinnar og hefur verið á góðri siglingu heima fyrir undan­farið.

Allt öðruvísi en Shamrock Rovers

Í að­draganda ein­vígisins hefur borið á því að verið sé að bera liðið saman við Sham­rock Rovers, topp­lið írsku deildarinnar sem lá í valnum í tví­gang gegn Ís­lands­meisturum Breiða­bliks í undan­keppni Meistara­deildar Evrópu á dögunum.

Komur írskra félagsliða hingað til lands hafa verið yfir meðallagi upp á síðkastið. Shamrock Rovers, topplið írsku úrvalsdeildarinnar, lá í valnum í tveggja leikja einvígi sínu við Íslandsmeistara BreiðabliksVísir/Pawel Cieslikiewicz

Er þetta saman­burður sem þú ert að lesa eitt­hvað mikið í?

„Gæða­lega séð eru þessi lið bara mjög svipuð held ég. Dundalk hefur þó unnið Sham­rock Rovers í tví­gang núna undan­farnar vikur en þetta Dundalk lið spilar allt öðru­vísi en Sham­rock Rovers.

Þeir eru mun bein­skeyttari, eru ekki þetta tiki-taka lið, sýna rosa­lega á­kefð í sinni pressu og beita oftar löngum boltum. Þetta er því allt öðru­vísi lið og þetta verða allt öðru­vísi leikir en leikir Sham­rock Rovers.“

Þurfa að bíta á jaxlinn

Það er skammt stórra högga á milli hjá KA-mönnum. Liðið er á fullu í Evrópu­keppni sem og heima fyrir og átti á mánu­dags­kvöld hörku­leik gegn Kefl­víkingum á úti­velli sem vannst 4-3.

Hvernig finnst þér leik­menn vera að takast á við á­lagið þessa dagana?

„Jú bara ó­trú­lega vel. Við höfum unnið fjóra leiki í röð, það hefur gengið vel en þegar á­lagið verður svona mikið yfir lengri tíma þá fer það auð­vitað að bíta í okkur.

Við lentum í smá skakka­föllum í síðasta leik þegar að Ívar Örn meiddist en Rodri er orðinn góður af sínum meiðslum. Staðan er bara þokka­lega góð þessa stundina og við náðum að rúlla að­eins á hópnum í síðasta leik.

Svo er það líka bara undir leik­mönnum komið að hugsa vel um sig á þessum vikum. Vera pro­fessional, hvíla sig og borða rétt. Svo þarf bara að bíta á jaxlinn, þú getur alveg hlupið meira en þú oft heldur. Menn þurfa bara vera klárir í að leggja vinnuna á sig.“

Leikur KA og Dundalk í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsending klukkan tíu mínútur í sex. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×