Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Þór/KA 0-1 | Akureyringar upp fyrir FH-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir fagna marki þeirrar síðarnefndu.
Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir fagna marki þeirrar síðarnefndu. vísir/hulda margrét

Þór/KA komst upp fyrir FH í 4. sæti Bestu deildar kvenna með 0-1 sigri í leik liðanna í Kaplakrika í kvöld. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði eina mark leiksins á 58. mínútu.

Sigur Þórs/KA var sanngjarn. Liðið skapaði sér fleiri og betri færi í fyrri hálfleik, skoraði svo snemma í þeim seinni og varðist mjög vel eftir það.

Bestu menn vallarins komu úr liði Þórs/KA. Hulda Ósk Jónsdóttir var gríðarlega hættuleg á hægri kantinum og skapaði mikinn usla. Miðverðirnir Hulda Ósk Hannesdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir léku frábærlega en maður leiksins var Melissa Lowder sem varði nokkrum sinnum vel og greip vel inn í þess á milli. Þá sneri Sandra María Jessen aftur í lið Þórs/KA eftir handleggsbrot og lék sinn fyrsta leik í rúman mánuð. Hún átti fína spretti og var óheppin að skora ekki í fyrri hálfleik.

Hulda Ósk Hannesdóttir lék vel í miðri vörn Þórs/KA.vísir/hulda margrét

FH hefur heillað með spilamennsku sinni í sumar en liðið var ólíkt sjálfu sér í kvöld. Þær voru undir í baráttunni í fyrri hálfleik en byrjuðu þann seinni vel og markið kom eiginlega á besta kafla FH-inga. Heimakonur vantaði svo svör við sterkum varnarleik gestanna síðasta hálftímann. Þá nýtti FH þær fjórtán hornspyrnur sem liðið fékk afar illa og aðeins einu sinni skapaðist hætta upp við mark Þórs/KA eftir þær.

Þór/KA hafði tapað tveimur leikjum í röð án þess að skora mark en það var sóknarhugur í Norðankonum í fyrri hálfleik. Strax á upphafsmínútu leiksins komst Karen María í dauðafæri en Aldís Guðlaugsdóttir varði frá henni.

Markverðirnir voru í góðum gír í kvöld og Melissa varði vel frá Valgerði Ósk Valsdóttur á 8. mínútu.

Aldís Guðlaugsdóttir var besti leikmaður FH í kvöld. Hér ver hún frá Huldu Ósk Jónsdóttur.vísir/hulda margrét

Eftir um hálftíma leik herti Þór/KA tökin og fékk þrjú ákjósanleg færi á tíu mínútum. Fyrst varði Aldís vel frá Margréti Árnadóttur, Sandra María slapp því næst í gegn en skaut í slánna og niður, Margrét skaut svo í varnarmann og loks henti Arna Eiríksdóttir sér fyrir skot Amalíu Árnadóttur. FH fékk eitt úrvals færi á þessum kafla þegar fyrirliðinn Shaina Ashouri átti skot sem Melissa varði virkilega vel.

Hulda Ósk fór rólega af stað en var frábær síðasta stundarfjórðung fyrri hálfleiks og átti hvern sprettinn á fætur öðrum á hægri kantinum sem skapaði usla í vörn FH. Hinum megin var Sandra María dugleg að stinga sér í gegn eins og þegar hún átti sláarskotið.

Melissa Lowder var öryggið uppmálað í marki Þórs/KA.vísir/hulda margrét

FH byrjaði seinni hálfleikinn af meiri krafti og Mackenzie George átti fínt skot framhjá á 52. mínútu. Aðeins mínútu síðar slapp Hulda Ósk í gegnum vörn heimakvenna en Aldís bjargaði.

Á 58. mínútu kom svo markið. Harpa Helgadóttir missti boltann klaufalega frá sér eftir langa sendingu fram, Karen María nýtti sér það og skoraði sitt þriðja mark í sumar.

Karen María skorar eina mark leiksins.vísir/hulda margrét

FH hafði nægan tíma til að jafna metin en komst lítt áleiðis gegn sterkri vörn Þórs/KA. FH-ingar urðu aðallega að gera sér langskot að góðu og þau varði Melissa örugglega.

Varamaðurinn Erla Sól Vigfúsdóttir komst næst því að jafna fyrir FH þegar tíu mínútur voru eftir en Melissa varði skot hennar eftir hornspyrnu vel.

Nær komst FH ekki og Þór/KA fagnaði kærkomnum og sanngjörnum sigri í blíðunni í Kaplakrika.

Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, var ekki sáttur með frammistöðu síns liðs gegn Þór/KA, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. FH tapaði leiknum, 0-1.

„Þetta var erfiður fyrri hálfleikur, slakur af hálfu FH. Ég var nokkuð ánægður með hvernig liðið brást við í upphafi seinni hálfleiks og ég tek eitthvað út úr því,“ sagði Guðni við Vísi eftir leikinn.

Guðni: Leikmenn voru ólíkir sjálfum sér

FH-ingar áttu erfitt uppdráttar í kvöld.vísir/hulda margrét

Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, var ekki sáttur með frammistöðu síns liðs gegn Þór/KA, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik.

„Þetta var erfiður fyrri hálfleikur, slakur af hálfu FH. Ég var nokkuð ánægður með hvernig liðið brást við í upphafi seinni hálfleiks og ég tek eitthvað út úr því,“ sagði Guðni í leikslok.

„En færanýting var arfaslök. Það er ótrúlegt að fá ekkert út úr þessu. Ég veit ekki hvað við áttum margar hornspyrnur en fyrir utan tvær vorum við ekki líklegar til að skora. Við fórum illa með stöður hér og þar á vellinum. Það vantaði ansi mikið upp á hjá FH í dag.“

FH byrjaði seinni hálfleikinn af nokkrum krafti og mark Þórs/KA kom kannski aðeins gegn gangi leiksins.

„Ég var ánægður með hvernig liðið þó brást við og kom inn í seinni hálfleikinn af því sá fyrri var ekki nógu góður. Við fengum alveg færi þá en þær líka. Það var í raun ótrúlegt að staðan hafi verið 0-0 í hálfleik því leikurinn var nokkuð opinn. En 0-0 var raunin og þess vegna var ákveðið högg að fá á sig mark. Eins og ég sagði fyrir leik hélt ég að liðið sem myndi skora fyrsta markið yrði ofan á í leiknum og sú varð raunin,“ sagði Guðni.

En hvað gekk svona illa hjá FH í fyrri hálfleik?

„Mér fannst liðið ólíkt sjálfu sér í baráttu og vilja og löngun til að vinna boltann og tæklingar. Maður sá atburði sem maður á ekki að sjá inni á vellinum þar sem einn leikmaður labbar framhjá fjórum FH-ingum, í þrígang held ég. Það er ekki boðlegt. Leikmenn voru ólíkir sjálfum sér,“ sagði Guðni að lokum.

Pétur: Fannst liðsheildin hjá okkur miklu sterkari en hjá FH

Pétur Heiðar Kristjánsson er aðstoðarþjálfari Þórs/KA.vísir/hulda margrét

Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari Þórs/KA, var sáttur með sigurinn í Kaplakrika í kvöld.

„Þetta var í rauninni lífsnauðsynlegt. Það hefði verið slæmt að tapa þriðja leiknum í röð og sogast niður í einhverja baráttu sem við viljum ekki vera í. Þannig við erum guðs lifandi fegin að hafa komið hingað og fara burt með þrjú stig,“ sagði Pétur.

En hvað skóp sigur Akureyringa í kvöld?

„Liðsheild og viljinn. Þær vildu svara fyrir frammistöðu síðustu tveggja leikja og við sýndum það með svakalegri liðsframmistöðu. Mér fannst liðsheildin hjá okkur miklu sterkari en hjá FH,“ sagði Pétur.

Þór/KA skapaði sér ákjósanleg færi í fyrri hálfleik með beittum sóknarleik.

„Við ákváðum að pressa þannig á þær að við næðum að loka á þær og vinna boltann á þessum stöðum sem við unnum hann á. Það skilaði sér í þessum færum sem við fengum. Varnarvinnan var frábær og svo fundum við uppspilsleiðir sem við æfðum í vikunni,“ sagði Pétur.

„Það gekk nokkuð fullkomlega þar til við komum í færin. Við náðum ekki alveg að nýta þau en nýttum það sem þurfti.“

Þór/KA varðist vel í leiknum og fyrir aftan vörnina átti Melissa Lowder afbragðs leik.

„Melissa var frábær. Hún var ekki nógu ánægð með sig í síðasta leik en hún svaraði því fullkomlega. Hún átti frábærar markvörslur og það var líka hinum megin. Það þarf að sýna það á myndböndum, hversu sturlaðar markvörslurnar voru í dag,“ sagði Pétur að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira