Fótbolti

Ótrúleg úrslit þegar þýska stálið bráðnaði en draumur Marokkó rættist

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Popp fórnar höndum. Mark hennar gegn Suður-Kóreu dugði Þjóðverjum ekki til að halda áfram keppni.
Alexandra Popp fórnar höndum. Mark hennar gegn Suður-Kóreu dugði Þjóðverjum ekki til að halda áfram keppni. Getty/Chris Hyde

Tvöfaldir heimsmeistarar Þýskalands þurfa í fyrsta sinn í sögunni að sætta sig við að komast ekki í útsláttarkeppni HM kvenna í fótbolta, eftir lokaleikina í riðlakeppni mótsins í Eyjaálfu í dag.

Úrslitin réðust í H-riðli í dag þar sem Kólumbía og Marokkó fóru á endanum bæði áfram, eftir 1-0 sigur Marokkó gegn Kólumbíu.

Þýskaland, sem er í 2. sæti heimslista FIFA, gerði aðeins 1-1 jafntefli við Suður-Kóreu en hefði með sigri unnið riðilinn.

Suður-Kórea hóf leikinn af miklum krafti og átti stangarskot áður en að So-Hyun Cho skoraði svo á 6. mínútu, eftir að rangstöðutaktík Þjóðverja brást.

En þegar leið að lokum fyrri hálfleiks náði Þýskaland að jafna og að sjálfsögðu var það Alexandra Popp sem skoraði með skalla.

Marokkó áfram í fyrsta sinn

Hins vegar náði Marokkó einnig að skora rétt fyrir hálfleik, og komast í 1-0 gegn Kólumbíu. Staðan í hálfleik var því þannig að Kólumbía og Marokkó voru á leið upp úr riðlinum, bæði með 6 stig, en Þýskaland (4 stig) og Suður-Kórea (1 stig) ekki. Það var Anissa Lahmari sem skoraði mark Marokkó eftir að vítaspyrna Ghizlane Chebbak var varin.

Leikmenn Morokkó ærðust af gleði eftir að hafa þurft að bíða úti á velli eftir því að leikur Þýskalands og Suður-Kóreu kláraðist.Getty/Paul Kane

Sama staða hélst út seinni hálfleikinn. Popp náði reyndar að koma boltanum aftur í markið fyrir Þjóðverja snemma í seinni hálfleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu, og hún átti sömuleiðis skalla í þverslá strax í kjölfarið.

Niðurstaðan er hins vegar sú að Kólumbía og Marokkó fara í 16-liða úrslitin, þar sem Kólumbía mætir liði Jamaíku en Marokkó leikur gegn Frakklandi, og fara báðir leikirnir fram á þriðjudaginn. Marokkó er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti en Kólumbía komst einnig í 16-liða úrslit árið 2015.

Riðlakeppninni er nú lokið og hefjast 16-liða úrslitin á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×