Fótbolti

Ísak fórnaði nefinu til að skora en höfuðið í lagi

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson skall illa saman við markvörð Crusaders og nefbrotnaði en var engu að síður glaður eftir leik.
Ísak Snær Þorvaldsson skall illa saman við markvörð Crusaders og nefbrotnaði en var engu að síður glaður eftir leik. Twitter/@RBKfotball

„Það er allt þess virði fyrst við komumst áfram, þó að maður sé með skurð og brotið nef,“ sagði Ísak Snær Þorvaldsson sem nefbrotnaði en skoraði samt í fyrsta leik sínum fyrir Rosenborg í tæpa þrjá mánuði.

Ísak hafði ekki getað spilað fótbolta í sumar vegna höfuðmeiðsla en sneri aftur til leiks í gær þegar Rosenborg sló út Crusaders frá Norður-Írlandi í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu, með 3-2 sigri í framlengdum leik.

Ísak kom inn á undir lok venjulegs leiktíma og skoraði svo í framlengingunni, en um leið og hann skoraði skall hann saman við markvörð Crusaders og nefbrotnaði.

„Ég var að sjá mynd af þessu og sá að ég skall með höfuðið í höfuð markvarðarins. Ég hélt að þetta hefði verið olnboginn en á myndinni sést að það er höfuðið. En ég skoraði markið svo ég er glaður,“ sagði Ísak glaðbeittur í viðtali við heimasíðu Rosenborgar, ánægður með að vera farinn að spila aftur þrátt fyrir óhappið í gær.

Bara brotið nef og skurður

„Þetta hefur verið erfitt og svekkjandi, mikið af æfingum, en allt þess virði á endanum. Maður er að leggja hart að sér til að geta spilað fyrir framan fólkið hérna,“ sagði Ísak.

Eflaust óttast einhverjir að Ísak þurfi tíma til að jafna sig eftir höggið í gær, sérstaklega þar sem að hann hefur verið svo lengi frá vegna höfuðmeiðsla, en Ísak ætlar sér að mæta Haugesund strax á sunnudaginn:

„Ég held að þetta hafi ekki verið neinn heilahristingur, svo ég verð vonandi aftur með á sunnudaginn. Þetta er bara brotið nef og smáskurður við augað, en allt í góðu.“

Rosenborg mætir svo Hearts frá Skotlandi í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar og er fyrri leikurinn í Noregi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×