Sport

Katrín Tanja öflug í lokagreininni og hafnaði í sjöunda sæti

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/fittestincapetown

Katrín Tanja Davíðsdóttir náði bestum árangri Íslendinganna þriggja á heimsleikunum í CrossFit sem hafa verið í gangi.

Katrín var öflug í síðustu grein mótsins, Echo Thruster Final, þar sem hún varð í öðru sæti og lyfti sér þar með upp í 7. sæti í heildarkeppninni. Annie Mist Þórisdóttir lauk keppni í 13. sæti eftir að hafa verið lengstum á topp tíu.

Í kvennaflokki var það hin ungverska Laura Horvath sem stóð uppi sem sigurvegari.

Í karlaflokki hafnaði Björgvin Karl Guðmundsson að endingu í 11. sæti eftir að hafa verið á topp 10 fyrir lokagreinina en hún gekk ekki nógu vel þar sem Björgvin Karl varð sextándi. Bakmeiðsli hafa verið að plaga okkar mann og þau reyndust dýrkeypt á endanum.

Kanadamaðurinn Jeffrey Adler vann keppnina í karlaflokki.

Tveir Íslendingar höfðu áður lokið keppni á leikunum í ár. Bergrós Björnsdóttir varð í þriðja sæti í flokki sextán til sautján ára stelpna og Breki Þórðarson varð í fimmta sæti í flokki fatlaðra, svokölluðum Upper Extremity flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×