Fótbolti

Brotist inn hjá fyrrverandi Arsenal-manni meðan konan var heima

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guendouzi-hjónin á góðri stund.
Guendouzi-hjónin á góðri stund.

Innbrotsþjófar létu greipar sópa heima hjá Matteo Guendouzi, fyrrverandi leikmanni Arsenal og núverandi leikmanni Marseille, meðan hann spilaði leik. Eiginkona hans var heima þegar innbrotið átti sér stað.

Á miðvikudaginn unnu Guendouzi og félagar í Marseille Bayer Leverkusen, 2-1, í æfingaleik á heimavelli sínum.

Meðan leiknum stóð brutust þjófar inn á heimili Guendouzis og stálu meðal annars Rolex úri að verðmæti tæplega 34 milljónum króna. Innbrotsþjófarnir brutu rúðu til að komast inn í hús Guendouzis.

Eiginkona hans var heima, vaknaði við hávaðann og hringdi á lögregluna. Þegar hún mætti á staðinn voru innbrotsþjófarnir á bak og burt.

Í janúar var brotist inn hjá Sead Kolasinac, þáverandi samherja Guendouzis hjá Marseille. Þeir bjuggu þá báðir í Cassis við Miðjarðarhafið.

Guendouzi gekk í raðir Arsenal frá Lorient 2018. Hann var í fjögur ár hjá Arsenal en seinni tvö árin var hann lánaður, fyrst til Herthu Berlin og svo til Marseille sem keypti hann svo í fyrra. Hinn 24 ára Guendouzi hefur leikið sjö leiki fyrir franska landsliðið og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×