Lífið

Hand­járna­­gjörningurinn skilaði Sindra þúsund fylgj­endum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sindri hefur verið handjárnaður við handriðið í rúmlega tvo sólarhringa.
Sindri hefur verið handjárnaður við handriðið í rúmlega tvo sólarhringa. Vísir/Steingrímur Dúi

Hinum 23 ára gamla Sindra Leví hefur nú tekist að afla sér eitt þúsund fylgjenda eftir að hafa verið handjárnaður við handrið í miðbæ Reykjavíkur síðan á laugardag.

„Ég hætti ekki neinu sem ég byrja á,“segir Sindri um áfangann í samtali við Vísi. Heldur rigningasamt var í miðbænum í gær þegar fréttastofa náði tali af honum. Þá sagðist hann harðákveðinn í að fara ekki úr handjárnunum fyrr en hann næði þúsund fylgjendum.

 „Ég hef ekki sofið í þrjá daga,“ segir Sindri. Hann segir fólk hafa komið yndislega fram við hann meðan á gjörningnum stóð. Margir hafi fært honum mat og spjallað við hann. „Þetta er eitt það skemmtilegasta og eitt það erfiðasta sem ég hef gert,“ segir hann.

Sindri vekur athygli á að fylgjendatalan á Youtube síðu hans marki ekki raunverulegan fjölda fylgjenda vegna þess hve lengi fylgjendatöluna tekur að uppfærast. Vitaskuld hafi hann sjálfur horft á þúsund manns ýta á Subscribe-hnappinn fyrir framan hann. 

Aðspurður hvað nú taki við segist Sindri ætla að birta eitt myndskeið í viku með hjálp félaga sinna. Markmiðið með myndböndunum sé að stíga út fyrir kassann, veita fólki innblástur og miðla jákvæðri orku. „Mig langar að fólki líði betur eftir að þau horfa á myndböndin mín heldur en áður en þau gera það,“ segir Sindri. Hann bendir áhugasömum á að enn sé hægt að fylgja honum á Youtube-rásinni Sindri Levi eða hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×