Fótbolti

Launin rosaleg hjá Neymar í Sádí Arabíu en fríðindin engu öðru lík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar da Silva Santos Júnior ætti að hafa það ágætt í Sádí Arabíu næstu tvö árin.
Neymar da Silva Santos Júnior ætti að hafa það ágætt í Sádí Arabíu næstu tvö árin. Getty/Eric Alonso

Neymar er nýr leikmaður Al-Hilal í Sádí Arabíu en arabíska liðið kaupir hann frá Paris Saint Germain fyrir það sem hugsanlega gæti orðið allt að 86 milljónum punda.

Neymar gerði tveggja ára samning við sádí-arabíska félagið og fær 138 milljónir punda í laun á ári eða 23 milljarða króna. Þetta eru ekki eins góð laun og hjá Cristiano Ronaldo en stórbrotin laun engu að síður.

Það eru aftur á móti fríðindin sem Al-Hilal bjóða Brasilíumanninum sem hafa kannski vakið enn meiri athygli.

Samkvænt frétt Foot Mercat þá mun Neymar fá aðgengi að einkaflugvél, hann fær risahús með starfsfólki, 80 þúsund evru bónus fyrir hvern sigur Al-Hilal (11,5 milljónir) og 500 þúsund evrur fyrir hverja færslu á samfélagsmiðlum sem hrósar Sádí Arabíu en það gera 72 milljónir króna.

Al-Hilal er frá Riyadh og spilar heimaleiki sína á Alþjóðlega King Fahd leikvanginum sem tekur yfir 68 þúsund áhorfendur.

Al-Hilal endaði í þriðja sæti á síðustu leiktíð en liðið sótti í sumar Kalidou Koulibaly frá Chelsea, Rúben Neves frá Wolves og Sergej Milinković-Savić frá Lazio og Malcom frá Zenit Sánkti Pétursburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×