Lífið

Fljúgandi furðu­hluturinn að öllum líkindum stór fluga

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sævar Helgi segir málið leyst.
Sævar Helgi segir málið leyst. Vísir

Fljúgandi furðuhluturinn í Grímsnesi er að öllum líkindum fluga.

Það er að minnsta kosti kenning Sævars Helga Bragasonar sem ræddi málið í samtali við Vísi.

Í gær var fjallað um einkennilegt myndband sem tekið var með dyrabjöllumyndavél í sumarbústað í Grímsnesi. Eigandinn botnaði ekkert í fljúgandi furðuhlut sem sást á myndbandinu, ekki frekar en þeir fræðimenn sem hann hafði rætt við. 

„Það sést að þetta er tekið að nóttu til og í myrkri er myndavélin næm fyrir hita sem lífverur gefa frá sér. Þegar rýnt er í myndbandið sést að þarna er búkur sem er ílangur og mjór og hann er augljóslega nálægt okkur fyrst hann flýgur fyrir það sem er í bakgrunni,“ segir Sævar Helgi í samtali við Vísi.

Líklegasta skýringin sé því hrossafluga eða annars konar fluga.

„Þetta sést líka þegar maður gúglar skordýr tekin með sömu dyrabjöllumyndavél. Flugur sem fljúga af blómum geta dregið með sér frjókorn og myndað svona slóð. Það getur líka verið vatn.“

„Þetta er jarðnesk geimvera sem kemur frá plánetunni jörð. Mjög merkileg sem slík,“ segir hann að lokum.


Tengdar fréttir

Fljúgandi furðuhlutur í Grímsnesi

Einkennilegt myndband náðist með dyrabjöllumyndavél í sumarbústað í Grímsnesi. Eigandinn segist hafa rætt við ýmsa fræðimenn sem botna ekkert í fljúgandi furðuhlut sem sést á myndbandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×