Umfjöllun og viðtöl: KA - Stjarnan 2-1 | Dramatíkin alls­ráðandi á Akur­eyri

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson var hetja KA í dag.
  Vísir/Hulda Margrét

KA vann dramatískan 2-1 heimasigur á Stjörnunni þegar liðin mættust á Akureyri í dag. Stjarnan misnotaði víti í stöðunni 1-1 og einum færri tókst KA að knýja fram sigur.

Leikurinn var hin mesta skemmtun. Gestirnir fóru betur af stað, héldu boltanum betur, voru góðir í pressunni og komu sér í góðar stöður. KA menn unnu sig inn í leikinn og voru fyrri til að koma boltanum í netið. 

Markið kom úr góðri sókn heimamanna á 14. mínútu, boltinn byrjaði hjá Elfari Árna Aðalsteinssyni inn á vallarhelming KA en hann átti sömuleiðis eftir að reka endahnútinn á sóknina. Ingimar Torbjörnssson Stöle sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn Stjörnumanna þar sem Elfar kláraði í netið, staðan 1-0.

Gestirnir svöruðu á 42. mínútu en þá áttir Róbert Orri góðan sprett inn á teig KA manna framhjá Ingimar Stöle og setti boltann í fætur á Emil Atlasyni sem skoraði sitt þrettánda mark í deildinni. Staðan í hálfleik 1-1. 

Í seinni hálfleik var Stjarnan sterkari aðilinn og fékk fleiri sénsa en það var ekki fyrr en á 77. mínútu að það dróg til tíðinda. Sveinn Margeir Hauksson gerðist brotlegur innan teigs þegar hann braut á Emil Atlasyni. Sveinn fékk sitt seinna gula spjald og þar með rautt og Stjarnan fékk víti. Emil Atlason tók vítaspyrnuna en smellti boltanum í þverslánna. 

Á 86. mínútu fékk Stjarnan svo aftur tækifæri til að komast yfir. Jóhann Árni Gunnarson tók þá aukaspyrnu inn á teig sem Kristijan Jajalo í marki KA misreiknaði. Boltinn endaði hjá varamanninum Kjartani Má Kjartanssyni sem skaut af stuttu færi en Dusan Brkovic bjargaði á marklínu. 

Þremur mínútum síðar komst varamaðurinn Ásgeir Sigurgeirsson í góða stöðu inn á teig og skaut boltanum í fjærhornið og kom KA í 2-1 nánast þegar klukkan sló 90 mínúturnar og dramatíkin í algleymi. 

KA hélt út og náði í mjög dýrmætt stig í sinni baráttu um að enda í efri helmingi deildarinnar. 

Afhverju vann KA?

Stjarnan var betri aðilinn í leiknum í dag, þeir fengu nokkur tækifæri til að klára þennan leik og fóru illa með færin sín. KA hins vegar hélt út og gafst aldrei upp þrátt fyrir að vera orðnir manni færri og ná í stigin þrjú af hraðfylgi. 

Hverjar stóðu upp úr?

Elfar Árni Aðalsteinsson í liði KA var mjög vinnusamur í leiknum og skorar gott mark, sókn sem hann hóf og endaði. Dusan Brkovic var að vanda klettur í vörn KA manna og bjargaði á línu þegar skammt var til leiksloka. 

Róbert Orri Þorkelsson var góður í liði Stjörnunnar, Ingimar Stöle átti oft í brasi með hann. Á stoðsendinguna í marki Stjörnumanna. Þá átti Jóhann árni Gunnarsson fínan leik. 

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn fá tækifæri oftar en einu sinni til að loka þessum leik í dag en fengu það laglega í bakið þegar KA náðu inn sigurmarkinu á lokamínútunum. 

Hvað gerist næst?

KA mætir FH í frestuðum leik í Kaplakrika á miðvikudaginn næstkomandi og hefst leikurinn kl. 17:30. Þá fer lokaumferðin fram um næstu helgi, þar heimsækir KA lið Fylkis og Stjarnan fær Keflavík í heimsókn. 

Björn Berg Bryde: „Það voru öll tækifæri til að vinna þennan leik“

„Ég er hundfúll eftir leikinn, það er ólíkt okkur hvernig þetta fer hér í lokinn. Mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum, við fáum þetta víti og rautt spjald en því miður nýtum við það ekki. Svo sofnum við á verðinum í lokinn og okkur er refsað fyrir það,“ sagði Björn Berg Bryde sem stjórnaði liði Stjörnunnar í fjarveru Jökuls Elísbetarssonar sem er nýbúin að eignast barn.

Stjarnan lenti undir en náði að svara áður en að hálfleikurinn var úti.

„Það var mjög sterkt hjá strákunum að ná inn þessu marki fyrir hálfleik. Við gátum þá notað hálfleikinn í að endurskipuleggja okkur og mér fannst við koma mjög flottir út í seinni hálfleikinn. Það var smá partur þar sem við vorum aðeins undir og langt frá mönnum en heildarframmistaðan fannst mér fín í seinni hálfleik. Við vorum að koma okkur í mjög góð færi og erum einum fleiri í lokinn.“

Björn var ekki ánægður hvernig liðið nýti mínúturnar eftir að rauða spjaldið fór á loft. 

„Mér fannst við rosalega óþolinmóðir eftir að rauða spjaldið kemur og við klikkum á vítinu. Það er ólíkt okkur, við vitum alveg hvernig við viljum spila. Við viljum þreyta bráðina hvort sem það tekur 90 eða 95 mínútur. Mér fannst við óþolinmóðir og við hefðum mátt gera betur þar. Þetta var rússibani og það er rosalega skrítið eftir þennan kafla í lokinn að standa hér og vera búnir að tapa leiknum. Þegar það voru öll tækifæri til að vinna hann.“

Framundan er síðasti leikur í deild áður en henni verður skipt upp. Stjarnan hefur nú þegar tryggt sig í efri helminginn. 

„Við erum öryggir í topp sex sem var markmið hjá okkur sem er frábært en við horfum ofar og ætlum okkur að fara eins hátt og við komumst. Við náum ekki Víking úr þessu en það eru önnur tvö lið sem hægt er að keppast við.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira