Fótbolti

Gylfi Þór orðinn leik­maður Lyng­by

Aron Guðmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er mættur aftur í atvinnumennskuna
Gylfi Þór Sigurðsson er mættur aftur í atvinnumennskuna Vísir/Getty

Gylfi Þór Sigurðs­son er orðinn leik­maður Lyng­by og skrifar hann undir eins árs samning við fé­lagið. Frá þessu greinir Lyng­by í færslu á sam­fé­lags­miðlum. Marka þessi skref Gylfa endur­komu hans í knatt­spyrnu á at­vinnu­manna­stigi.

Það var í gær sem danskir miðlar full­yrtu að Gylfi Þór myndi skrifa undir samning við Lyng­by í dag að lokinni læknis­skoðun hjá fé­laginu en leik­maðurinn hefur undan­farið æft í Dan­mörku og hefur þar verið undir smá­sjá þjálfara­t­eymis fé­lagsins sem vildi sjá hver staðan á Gylfa væri.

Gylfi hefur verið án fé­lags síðan samningur hans við enska úr­­vals­­deildar­­fé­lagið E­ver­ton rann út sumarið 2022. Hann hefur ekki spilað fót­­bolta­­leik síðan í maí 2021 en hann var hand­­tekinn síðar það sumar vegna gruns um brot gegn ó­­lög­ráða ein­stak­lingi.

Í apríl síðast­liðnum lýsti lög­reglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunar­­gögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum sak­­sóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.

Lyng­by er í 9. sæti dönsku úr­vals­deildarinnar með sjö stig eftir sex leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Nord­sjælland á sunnu­daginn og verður fróð­legt að sjá hvort Gylfi Þór verði í leik­manna­hópi liðsins þá.

Hjá Lyngby hittir Gylfi Þór fyrir Frey Alexandersson sem er þjálfari liðsins og þá eru íslensku leikmennirnir Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Finnson og Andri Lucas Guðjohnsen nú þegar á mála hjá Lyngby.

Gylfi Þór er einn besti knatt­spyrnu­maður Ís­lands frá upp­hafi og á, meðal annars, að baki feril sem spannar 318 leiki í ensku úr­vals­deildinni þar sem að hann skoraði 67 mörk og gaf 50 stoð­sendingar með liðum á borð við Totten­ham, E­ver­ton og Swan­sea City.

Gylfi Þór í leik með Everton á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinniVísir/Getty

Þá hefur Gylfi Þór einnig leikið 78 A-lands­leiki fyrir Ís­lands hönd, skorað í þeim 26 mörk og verið hluti af gull­aldar­liðinu sem komst á tvo stór­mót, EM 2016 og HM 2018.

Nú­verandi lands­liðs­þjálfari Ís­lands, Norða­maðurinn Age Hareide, hefur áður lýst yfir á­huga sínum á því að fá Gylfa Þór aftur inn í ís­lenska lands­liðið myndi það fara svo að hann hæfi feril sinn á nýjan leik.

Nú þegar stað­fest hefur verið að það sé raunin verður á­huga­vert að sjá hvort Gylfi Þór gefi aftur kost á sér í ís­lenska lands­liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×