Erlent

Giuli­ani á­byrgur fyrir meið­yrðum í garð kosninga­starfs­manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Rudy Giuliani ræðir við blaðamenn við fangelsi í Fulton-sýslu í Georgíu þegar hann gaf sig fram þar á dögunum. Fyrir aftan han stendur maður sem heldur á klút sem á er letrað „Trúðabílsvaldarán“.
Rudy Giuliani ræðir við blaðamenn við fangelsi í Fulton-sýslu í Georgíu þegar hann gaf sig fram þar á dögunum. Fyrir aftan han stendur maður sem heldur á klút sem á er letrað „Trúðabílsvaldarán“. Vísir/EPA

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði að Rudy Giuliani, fyrrverandi persónulegur lögmaður Donalds Trump, hefði gefið meiðyrðamál tveggja kosningastarfsmanna í Georgíu á hendur honum. Starfsmennirnir sættu líflátshótunum eftir að Giuliani og fleiri sökuðu þær ranglega um svik.

Giuliani afhenti ekki stefnendunum rafræn gögn sem þeir kröfðust í málinu. Því úrskurðaði dómari að hann hefði fyrirgert rétti sínum til málsvarnar. Hann gæti nú átt yfir höfði sér þunga sekt sem fjallað verður sérstaklega um fyrir dómi í Washington-borg seinna á þessu ári eða snemma á því næsta, að sögn CNN-fréttastöðvarinnar.

Mæðgurnar Ruby Freeman og Wandrea Moss sökuðu Giuliani um að valda sér tilfinningalegum skaða og mannorðshnekk auk þess að stefna öryggi þeirra í hættu með lygum hans um að þær hefðu átt við atkvæði við talningu eftir forsetakosningarnar árið 2020. Giulani hefur áður viðurkennt að ásakanir hans á hendur mæðgunum hafi verið rangar og að þær hafi skaðað mannorð þeirra.

Giuliani er einn nítján sakborninga sem eru nefndir í ákæru umdæmissaksóknara í Georgíu fyrir samsæri um að reyna að snúa úrslitum forsetakosninganna þar ólöglega. Trump, sem er einnig ákærður í því máli, hefur haldið því ranglega fram að stórfelld kosningasvik hafi kostað hann sigur í Georgíu. Hluti sakborninganna í málinu eru ákærðir fyrir sinn þátt í að áreita Freeman og Moss.

Stjarna Giuliani hefur fallið skarpt undanfarin ár en hann naut nokkuð almennrar aðdáunar sem borgarstjóri New York eftir hryðjuverkaárásirnar þar 11. september árið 2001. Hann er nú sagður í fjárhagskröggum, ekki síst vegna sligandi lögfræðikostnaðar í tengslum við herferð hans og Trump til þess að reyna að snúa við úrslitum forsetakosninganna fyrir tæpum þremur árum.


Tengdar fréttir

Falskir kjör­menn og lygar kjarninn í málinu gegn Trump

Listi yfir falska kjörmenn sem Donald Trump og bandamenn hans fengu repúblikana í Georgíu til þess að senda Bandaríkjaþingi og lygar um kosningaúrslitin eru kjarninn í víðfeðmri ákæru á hendur fyrrverandi forsetanum og átján samverkamönnum hans í ríkinu. Nokkrir þeirra eru ákærðir fyrir tilraun til að stela kjörgögnum og eiga við kosningavélar.

„Eins og að ætla að tæma hafið með skóflu“

Stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta hótuðu kjörstjórnarfulltrúum lífláti vegna ásakana Trumps og stuðningsmanna hans um að kosningasvindl hafi verið framin í forstetakosningunum árið 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×