Íslenski boltinn

Gunn­leifur og Kjartan fylla skarð Ás­mundar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnleifur og Kjartan koma inn í teymið hjá Blikum.
Gunnleifur og Kjartan koma inn í teymið hjá Blikum. Vísir/Breiðablik

Breiðablik hefur ráðið þá Gunnleif Gunnleifsson og Kjartan Stefánsson inn í meistaraflokks kvenna teymið. Það verða því fjórir þjálfarar sem munu stýra Blikum út tímabilið í Bestu deild kvenna þar sem Ana Cate og Ólafur Pétursson voru fyrir í teyminu.

Breiðablik hefur verið í þjálfaraleit síðan Ásmundur Arnarsson var látinn fara nýverið. Ekki var árangur sumarsins talinn nægilega góður en liðið er sem stendur í 2. sæti, átta stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals og þá tapaði Breiðablik fyrir Víking í úrslitum Mjólkurbikarsins.

Í kvöld staðfesti félagið komu Gunnleifs og Kjartans en Kristófer Sigurgeirsson óskaði eftir því að hætta sem aðstoðarþjálfari eftir að Ásmundur var látinn fara.

„Gunnleif þarf vart að kynna, hann spilaði með Breiðabliki, 2013-2020 og var fyrirliði liðsins frá árin 2016. Undanfarin ár hefur hann sinnt þjálfun hjá Breiðabliki á öllum stigum allt frá 8. flokki til 2. flokks,“ segir í tilkynningu Breiðabliks um ráðningu Gunnleifs.

„Kjartan Stefánsson hefur víðtæka reynslu af þjálfun en hann hefur á undanförnum árum þjálfað bæði Fylki og Hauka í meistaraflokki kvenna. Kjartan mun að loknu tímabilinu hjá Breiðabliki taka við þjálfun Augnabliks kvenna en samkomulag um þá ráðningu lá þegar fyrir,“ segir um ráðningu Kjartans.

Breiðablik á fimm leiki eftir af tímabilinu. Liðið mætir Þrótti Reykjavík á heimavelli, Þór/KA á Akureyri, Stjörnunni og FH á heimavelli áður en liðið lýkur leik á Hlíðarenda í lokaumferð Íslandsmótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×