Íslenski boltinn

Hólmar Örn í bann fyrir „al­var­­lega grófan og hættu­­legan leik“

Aron Guðmundsson skrifar
Erlingur lá í jörðinni í kjölfar atviksins
Erlingur lá í jörðinni í kjölfar atviksins

Hólmar Örn Eyjólfsson, leikmaður Vals, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann en aganefnd KSÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hólmar hafi sýnt af sér „alvarlega grófan og hættulegan leik“ í leik Vals og Víkings Reykjavíkur í Bestu deild karla á dögunum.

Aga- og úrskurðarnefnd tók fyrir erindi frá Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ vegna atviks sem átti sér stað í umræddum leik en í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál úrskurðar nefndin meðal annars um mál sem framkvæmdastjóri KSÍ beinir til nefndarinnar.

Er um að ræða atvik á 11. mínútu leiksins þar sem að Hólmar Örn Eyjólfsson virðist slæma hendi sinni í andlitið á Erlingi. 

Klippa: Atvikið milli Hólmars og Erlings í leik Vals og Víkings

Fyrir aganefndinni lágu fyrir staðfestingar aðaldómara sem og aðstoðardómara hans sem segjast ekki hafa séð umrætt atvik og því ekki brugðist við vegna þess. 

„Það er mat nefndarinnar, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að atvik það sem vitnað er til í greinargerð framkvæmdastjóra frá 28. ágúst sl. og jafnframt birtist á myndskeiðum sem fylgir greinargerð framkvæmdastjóra og greinargerð Vals, sé alvarlegt agabrot,“ segir í úrskurði aganefndar KSÍ. 

Í tilvitnuðu atviki hafi Hólmar Örn, leikmaður Vals, sýnt af sér alvarlega grófan og hættulegan leik. 

„Er hann slæmir hendi sinni í andlit leikmanns Víkings R. Erlings Agnarssonar. Atvik þetta hafi hvorki dómari né aðstoðarmenn hans séð í leik Vals og Víkings R. í Bestu deild karla.“

Hólmar sé því úrskurðaður í eins leiks bann.

Hólmar hafi ýtt Erlingi

Fyrir aganefnd lá einnig fyrir skrifleg greinargerð Vals þar sem sagði að Hólmar Örn væri ekki að slá til Erlings. Hann ýti Erlingi frá sér eftir að Erlingur rífur í treyju hans. 

„Og hangir í honum og truflar Hólmar með ólögmætum hætti í sínum leik.“

Einnig megi sjá að Hólmar hugi strax að Erlingi og taki utan um hann og kanni hvort það sé í lagi með Erling.

„Í kjölfarið stendur Erlingur strax upp á nokkra meiðsla. Hólmar, Erlingur og Erlendur dómari taka saman stutt spjall og leik haldið áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×