Fótbolti

KA enda í neðri hluta Bestu deildarinnar eftir jafntefli í Árbænum

Siggeir Ævarsson skrifar
KA-menn hafa slegið út tvo andstæðinga í Evrópuævintýri sínu í sumar en ekki gengið jafnvel í Bestu deildinni
KA-menn hafa slegið út tvo andstæðinga í Evrópuævintýri sínu í sumar en ekki gengið jafnvel í Bestu deildinni VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Fylkir og KA skildu jöfn í Árbænum í dag 1-1. Fyrir leikinn áttu KA-menn enn möguleika á að ná í 6. sætið í deildinni en þurftu þó að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

KA var í harði baráttu um 6. sætið en glugginn var þó óðum að lokast. Sigur í dag hefði ýtt liðinu upp í 31 stig sem hefði ekki dugað í 6. sætið þar sem KR gerði jafntefli og FH og Stjarnan unnu sína leiki. Öll þessi lið eru einnig með betri markatölu en KA, svo að vonin um 6. sætið var ef til vill aldrei meira en draumur.

KA komst yfir í upphafi leiks með marki frá Harley Willard á 17. mínútu en eftir það féll liðið nokkuð til baka og hleypti heimamönnum betur inn í leikinn. Í upphafi seinni hálfleiks fengu Fylkismenn svo vítaspyrnu sem Ólafur Karl Finsen skoraði úr og var það síðasta mark leiksins.

Sveinn Gísli Þorkelsson fékk svo kjörið tækifæri rétt fyrir lok leiks til að tryggja Fylki sigurinn þegar hann tók hlaup upp allan völlinn úr vörninni en sendingin á Pétur Bjarnason var ekki góð og færið fór forgörðum.

Lokatölur í Árbænum og bæði lið klára Íslandsmótið í neðri hluta Bestu deildarinnar, KA í 7. sæti með 29 stig og Fylkir í því 9. með 21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×