Íslenski boltinn

„Á rosalega erfitt með að skilja við þetta í þessari stöðu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pálmi Rafn ætlar að koma KR-liðinu í fremstu röð á nýjan leik.
Pálmi Rafn ætlar að koma KR-liðinu í fremstu röð á nýjan leik. vísir/sigurjón

Pálmi Rafn Pálmason ætlar að koma KR í fremstu röð á nýjan leik. Liðið leikur í þriðju efstu deild á næsta tímabili en hann mun stýra liðinu næstu þrjú árin.

Pálmi Rafn tók við starfinu til af Perry Maclachlan í lok júlí en tókst ekki að koma í veg fyrir fall liðsins næstefstu deild.

„Þetta er krefjandi starf en mikill metnaður að fara á réttan stað. Ég á rosalega erfitt með að skilja við þetta í þessari stöðu. Mér fannst ég ekki geta gert neitt annað en halda áfram með þetta og reynt að koma okkur á staðinn sem við eigum að vera á,“ segir Pálmi Rafn og heldur áfram.

Verðum að taka gagnrýni og horfast í augu við vandann

„Við ætlum okkur að fara beint upp á næsta ári og síðan beint aftur upp árið eftir það. Þar eigum við að vera en höfum ekki verið upp á síðkastið. Núna er botninum náð og þá er bara að spyrna sér harkalega upp.“

Pálmi segir að það sé mjög mikill vilji innan félagsins að gera vel fyrir kvennaliðið.

„Við verðum bara að taka þeirri gagnrýni sem við höfum fengið á okkur undanfarin ár og það þýðir ekkert að fela sig fyrir því. Það hefur bara ekki verið nægilega vel gert og ýmsar ástæður fyrir því. Ef maður koðnar og tekur ekki gagnrýninni og horfir bara í hina áttina þá gerist ekki neitt, það er ekki verið að gera það hjá okkur og núna er virkilega verið að taka á þessu og við ætlum að koma liðinu í fremstu röð aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×