Íslenski boltinn

Blikar sektaðir fyrir „ó­á­sættan­lega fram­komu“ fyrir leikinn gegn Víkingum

Aron Guðmundsson skrifar
Það er alltaf líf og fjör þegar Víkingur og Breiðablik mætast.
Það er alltaf líf og fjör þegar Víkingur og Breiðablik mætast. Vísir/Hulda Margrét

Aga- og úrskurðanefnd KSÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu að sekta knattspyrnudeild Breiðabliks um eitt hundrað þúsund krónur vegna framkomu karlaliðs félagsins fyrir leik liðsins gegn Víkingi Reykjavík í Bestu deild karla á dögunum. 

Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 29. ágúst 2023, var tekin fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni KSÍ á leik Víkings R. og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 27. ágúst síðastliðinn.

Í skýrslu eftirlitsmannsins benti hann á þær staðreyndir að lið Breiðabliks hefði mætt á Víkingsvöll 30 mínútum áður en leikurinn átti að hefjast, Blikar hefðu ekki skráð leikmenn og liðsstjórn á vef KSÍ í samræmi við ákvæði í Handbók leikja og þar sem skráning var ekki gerð aðgengileg fyrr en 30 mínútum áður en leikur átti að hefjast gat heimalið ekki skilað undirritaðri skýrslu til dómara 45 mínútum fyrir leik, líkt og gera á samkvæmt Handbók leikja.

Eftir umræddan fund var Blikum gefin frestur til þess að skila inn greinargerð um málið en aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom síðan aftur saman í gær þar sem að niðurstaðan var sú að framkoma Breiðabliks fyrir umræddan leik hafi verið óásættanleg og falli undir ákvæði 5.10 í lögum KSÍ.

„Það er afstaða nefndarinnar að með framkomu þeirri sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns hafi Breiðablik virt að vettugi a.m.k. fjórar reglur um framkvæmd knattspyrnuleikja samkvæmt Handbók leikja 2023,“ segir í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar í málinu. 

Það var niðurstaða nefndarinnar að sekta knattspyrnudeild Breiðabliks um 100 þúsund krónur vegna framkomu liðsins í aðdraganda leiksins gegn Víkingi Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×