Erlent

„Illsku er ekki treystandi“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Úkraínuforseti heldur ræðu sína á 78. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi.
Úkraínuforseti heldur ræðu sína á 78. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi. AP Photo/Richard Drew

Illsku er ekki treystandi. Þetta voru skilaboð Volodómírs Selenskís Úkraínuforseta þegar hann hélt ávarp sitt á Allsherjarþingi Semeinuðu þjóðanna í gærkvöldi.

 Hann hvatti heimsbyggðina til þess að sameinast í því að binda enda á árásárstríð Rússa á land hans. Ræða forsetans var ástríðufull og honum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði að það verði að stöðva yfirvöld í Moskvu, sem ráði yfir kjarnorkuvopnum, í að ýta heimsbyggðinni út á brún allsherjarstríðs.

Selenskí lagði mikla áherslu í ræðu sinni á þá hættu sem heiminum sé búin af völdum Rússa. Þá sagði hann að öll önnur vandamál, eins og loftlagsváin, sitji á hakanum vegna hegðunar Rússa.

„Vopnvæðinguna verður að stöðva, stríðsglæpamönnum verður að refsa, fólk sem hefur verið flutt úr landi verður að koma til baka og innrásarherinn verður að hörfa til síns heima,“ sagði Selenskí meðal annars. Rússar hafa verið sakaðir um að taka úkraínsk börn af hernumdu svæðunum og flytja þau til Rússlands og sakaði Selenskí Rússa um þjóðarmorð í því samhengi.

Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín Rússlandsforsetra vegna þess máls í mars síðastliðnum en Rússar hafa ítrekað þvertekið fyrir að standa í ólöglegum flutningi á börnum til Rússlands.

Selenskí beindi orðum sínum ekki síst til þeirra landa sem hafa staðið á hliðarlínunni og neitað að taka afstöðu til innrásarinnar eða þeirra sem hafa stutt málstað Rússa. Þar er um að ræða lönd á borð við Indland, Brasilíu og Íran, en þeir síðastnefndu hafa selt Rússum árásardróna sem hafa leikið almenna borgara grátt í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×