Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - HK 2-1 | Fyrsti sigur Keflvíkinga síðan annan í páskum

Andri Már Eggertsson skrifar
5P8A9638
vísir/diego

Keflvíkingar unnu ansi kærkominn sigur gegn HK 2-1 og eru en á lífi í botnbaráttunni. Sami Kamel skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti sigur Keflvíkinga í deildinni síðan í fyrstu umferð. 

Leikurinn byrjaði með látum. Eftir fimm mínútur slapp Örvar Eggertsson einn í gegn eftir sendingu frá Atla Arnarssyni.

Eftir færi gestanna fór Keflavík í sókn og þá braut Ahmad Faqa á Ígnacio Heras Anglada inn í teig og dómarinn í engum vafa og dæmdi vítaspyrnu. Ígnacio fór sjálfur á vítapunktinn og renndi boltanum í hægra hornið og kom Keflavík yfir.

Flugeldasýningin hélt áfram og næst var komið að HK. Atli Hrafn átti góða sendingu til hægri á Örvar sem tók boltann með sér og renndi honum á Marciano Aziz sem átti gott skot í varnarmann og inn.

Á 23. mínútu kom Sami Kamel Keflavík aftur yfir með laglegu marki. Heimamenn áttu gott spil þar sem Muhamed Alghoul náði að lyfta boltanum á Kamel sem náði laglegu skoti á lofti og skoraði.

Kamel fékk dauðafæri til þess að bæta við þriðja markinu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Ísak Daði átti frábæra sendingu á fjærstöng þar sem Kamel átti skalla í grasið og á markið en Arnar Freyr varði frábærlega. Kamel var ósáttur að markið hafi ekki fengið að standa þar sem honum fannst boltinn vera inni.

Heimamenn voru 2-1 yfir í hálfleik.

Ólíkt fyrri hálfleik fór síðari hálfleikur rólega af stað. Þegar tíu mínútur voru liðnar fékk Arnþór Ari dauðafæri þar sem hann átti skot inn í teig rétt framhjá.

Skömmu síðar fékk Kamel dauðafæri þar sem Arnar Freyr átti slaka sendingu beint á Kamel en Arnar náði að bæta upp fyrir eigin mistök og varði frá honum.

Það var mikil harka í Keflavík og á tæplega sextán mínútum lyfti Arnar Þór Stefánsson, dómari leiksins, fimm sinum upp gula spjaldinu.

Það átti sér stað sérstakt atvik þegar brotið var á Örvari sem var við það að sleppa í gegn og í kjölfarið barst boltinn til Tuma sem komst einn í gegn en þá flautaði Arnar Þór aukaspyrnu. Stórt atvik sem gestirnir voru ekki sáttir með.

Fleiri urðu mörkin ekki og Keflavík vann afar kærkominn 2-1 sigur.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar voru töluvert betri í fyrri hálfleik og voru óheppnir að hafa aðeins skorað tvö mörk. Það var mikil harka í síðari hálfleik og heimamenn náðu að halda í eins marks forystu.

Eftir að hafa spilað 23 leiki í Bestu-deildinni í röð án þess að sigra kom sigur hjá Keflvíkingum sem eiga möguleika á að halda sér uppi.

Hverjir stóðu upp úr?

Sami Kamel hefur verið besti leikmaður Keflavíkur á tímabilinu og sveik engan í dag. Kamel skoraði annað mark Keflavíkur sem reyndist sigurmarkið.

Hinn nítján ára Ísak Daði Ívarsson var öflugur í liði Keflavíkur. Ísak var allt í öllu í sóknarleik heimamanna og kom að sigurmarkinu.

Hvað gekk illa?

Gengi HK hefur verið afar lélegt á grasi. Seinasti sigur HK í deildarleik á grasi kom í Lengjudeildinni gegn Aftureldingu þann 5. ágúst á síðasta ári. Eftir það hefur HK spilað fimm grasleiki og tapað þeim öllum.

Það var stórt atvik þegar Arnar Þór leyfði leiknum ekki að halda áfram þegar Tumi Þorvarsson slapp einn í gegn. Arnar flautaði þar aukaspyrnu þegar brotið var á Örvari.

Hvað gerist næst?

HK fær Fylki í heimsókn næsta fimmtudag klukkan 19:15.

Á sama tíma mætast Fram og Keflavík.

Ómar: Stimpluðum okkur inn í fallbaráttuna með þessu tapi

Ómar Ingi, þjálfari HK, var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var svekktur eftir tap gegn Keflavík.

„Þessi leikur fór sennilega frá okkur í fyrri hálfleik þar sem mér fannst við fínir í seinni hálfleik. Mér fannst við samt ekki ná að brjóta þá í síðari hálfleik,“ sagði Ómari Ingi eftir leik.

Leikurinn byrjaði með látum þar sem HK fékk dauðafæri til að skora fyrsta markið skömmu síðar skoruðu bæði lið og staðan var 1-1 eftir átta mínútur.

„Þetta var bara einn af þessum fimm mínútna köflum þar sem við vorum öflugir. Bæði lið voru að sækja og þetta var fram og til baka.“

Ómari fannst HK ekki gera nóg til þess að verðskulda jöfnunarmark.

„Maður fær alltaf það sem maður verðskuldar úr leikjum og við skoruðum ekki og gerðum ekki nóg til að jafna.“

Ómar vildi ekki tjá sig um dómgæsluna aðspurður bæði út í viðskipti Guðlaugs Fannars og Örvars í fyrri hálfleik og síðan atvikið þegar að Tumi komst einn í gegn en dómarinn flautaði aukaspyrnu.

HK er með fimm stiga forskot á bæði ÍBV og Fram. Ómar taldi þetta vera í fyrsta skipti á tímabilinu sem HK er í fallbaráttu.

„Í fyrsta skipti í sumar erum við þátttakendur í fallbaráttunni. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hratt og bregðast við því. Við þurfum að átta okkur á því að við stimpluðum okkur inn í fallbaráttuna með leiknum í dag,“ sagði Ómar Ingi eftir leik.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira