Körfubolti

Dómarar búnir að semja en eiga eftir að kjósa

Siggeir Ævarsson skrifar
Simmi getur vonandi mætt í vinnuna á þriðjudaginn
Simmi getur vonandi mætt í vinnuna á þriðjudaginn vísir/bára

Allt útlit er fyrir að keppni í Subway-deildum karla og kvenna hefjist á réttum tíma eftir að samningar náðust á milli dómara og KKÍ í vikunni. Dómarar eiga þó eftir að greiða atkvæði um samninginn og samþykkja hann formlega.

Körfuknattleiksdómarar lögðu niður störf í upphafi mánaðar og var sú ákvörðun samþykkt einróma á fundi Körfuknattleiksdómarafélags Íslands, KKDÍ. Dómarar höfðu þá verið samningslausir síðan 2014 og voru ósáttir við einhliða ákvarðarnir KKÍ um launamál.

Samninganefnd félaganna og samninganefnd körfuknattleiksdómara hafa setið á rökstólum síðustu daga og lagt allt kapp á að ná saman enda byrjar Subway-deild kvenna á þriðjudaginn. Samningar tókust loks á fimmtudaginn og Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, sagði í samtali við Hádegisfréttir Bylgjunnar í gær að allt væri klappað og klárt.

„Það er búið að semja. Samninganefnd félaganna og samninganefnd körfuknattleiksdómara búnar að ná góðum samningi og allt lítur vel út. Nú fer þetta sína leið. Dómarar þurfa að samþykkja þetta formlega og svo félögin formlega. Það gerist í næstu viku. Nú er bara áfram gakk og ekkert nema gleði framundan.“

Dómarar munu ganga til atkvæða um samninginn á morgun. Miðað við orð Hannesar er ekkert því til fyrirstöðu að samningurinn verði samþykktur og deildirnar fari af stað á réttum tíma. Þeir dómarar sem Vísir ræddi við og vildu ekki koma fram undir nafni sögðu þó að ekki væri algjör einhugur innan hópsins um samninginn en töldu vissulega meiri líkur en minni á að hann yrði samþykktur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×