Erlent

Dugir ekki að vera hin­segin eða kona og óttast mis­munun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Braverman er sögð vilja skýra afstöðu ríkisstjórnarinnar til málefna flóttamanna.
Braverman er sögð vilja skýra afstöðu ríkisstjórnarinnar til málefna flóttamanna. epa/Andy Rain

Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, mun velta því upp í ræðu á samkomu American Enterprise Institute í Washington, hvort Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna frá 1951 eigi enn við í dag.

Frá þessu greinir BBC, sem virðist hafa komist yfir ræðu Braverman.

Ráðherrann er sagður munu segja að forsendur hafi breyst frá því að sáttmálinn var undirritaður og að í framkvæmd hafi skilyrði um „ofsóknir“ vikið. Þannig sé nú nóg að sæta „fordómum“. Áður hafi fólk þurft að hafa búið við „rökstuddan ótta“ um ofsóknir en nú dugi að menn óttist mögulega fordóma.

Þetta þýði að mun fleiri uppfylli nú skilyrði Flóttamannasáttmálans en áður.

Samkvæmt Centre for Policy Studies, sem stofnuð var af Margaret Thatcher og Keith Joseph, geti að minnsta kosti 780 milljón manns sótt um hæli á þessum nýju forsendum, þeirra á meðal allt samkynhneigt fólk og allar konur í Afganistan, svo dæmi séu nefnd.

Braverman segir þetta ekki ganga.

„Leyfið mér að útskýra nánar; það eru stór svæði í heiminum þar sem það er afar erfitt að vera samkynhneigður eða kona. Það er rétt að við bjóðum grið þar sem fólk sætir ofsóknum. En við munum ekki getað viðhaldið flóttamannakerfinu ef það að vera samkynhneigður eða kona og óttast mismunun í heimalandinu dugir til að uppfylla skilyrði um hæli,“ mun ráðherrann segja.

Þá gangi það ekki að fólk geti ferðast á milli margra öruggra ríkja og jafnvel dvalið þar árum saman, á meðan það velur stað til að óska eftir hæli. Það sé bæði fáránlegt og gangi ekki upp.

Hér má finna ítarlega umfjöllun BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×