Körfubolti

Þórsarar höfðu betur í nýliðaslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. mynd/þorgeir

Þór Akureyri vann góðan níu stiga sigur er liðið tók á móti Stjörnunni í nýliðaslag 1. umferðar Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld, 67-58.

Lítið var skorað í fyrsta leikhluta, en heimakonur í Þór voru sterkari í upphafi leiks og leiddu að honum loknum með átta stiga mun, staðan 14-6. Áfram héldu heimakonur að auka muninn fram að hálfleikshléi og náðu mest 21 stigs forskoti í stöðunni 31-10. Gestirnir löguðu stöðuna þó lítillega fyrir hlé og staðan var 33-19 þegar flautað var til hálfleiks.

Stjörnukonur mættu svo vel til leiks eftir hálfleikhléið og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Munurinn var kominn niður í fimm stig að loknum þriðja leikhluta og Stjarnan jafnaði metin í 54-54 þegar lokaleikhlutinn var um það bil hálfnaður. Það voru þó heimakonur sem reyndust sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum níu stiga sigur, 67-58.

Hrefna Ottósdóttir var stigahæst í liði Þórs með 17 stig, en í liði Stjörnunnar var Katarzyna Anna Trzeciak atkvæðamest með 18 stig af bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×