Fótbolti

Osimhen hótar að fara í mál við Napoli vegna niðurlægjandi myndbanda á TikTok

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Osimhen varð fyrir aðkasti í myndböndum á TikTok síðu Napoli.
Victor Osimhen varð fyrir aðkasti í myndböndum á TikTok síðu Napoli.

Umboðsmaður Victors Osimhen, leikmanns Ítalíumeistara Napoli, hefur hótað að fara í mál við félagið vegna myndbanda sem birtust á TikTok aðgangi þess.

Þar er gert grín að vítaklúðri Osimhens gegn Bologna um helgina. Undir myndbandinu hljómar skræk rödd sem segir „gefðu mér vítaspyrnu“.  Í öðru myndbandi á TikTok síðu Napoli er Osimhen líkt við kókoshnetu.

Búið er að eyða myndbandinu en skaðinn er skeður. Umboðsmaður Osimhens, Roberto Calenda, sagði að á Twitter að hann væri að íhuga að fara í mál við Napoli.

„Við áskiljum okkur rétt til að fara í mál og gera allt til að verja Victor. Það sem gerðist í dag á TikTok er ekki boðlegt,“ skrifaði Calenda.

„Myndband þar sem gert var grín að Victor var fyrst birt en svo eytt. Þetta er alvarlegt mál sem veldur leikmanninum skaða og er enn eitt dæmið um slæma meðferð sem hann hefur mátt þola undanfarin misseri.“

Osimhen klúðraði víti í leiknum gegn Bologna um helgina og var alls ekki sáttur við Rudi Garcia, knattspyrnustjóra Napoli, þegar hann tók hann af velli. Osimhen baðst seinna afsökunar á framkomu sinni.

Glöggir netverjar hafa tekið eftir að Osinhem hefur eytt öllu efni tengdu Napoli af samfélagsmiðlum sínum eftir að myndböndin voru birt á TikTok. 

Osimhen var markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með 26 mörk. Napoli varð meistari í fyrsta sinn í 33 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×