Fótbolti

Heimsmeistari selur sundlaugar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephane Guivarc'h fór aðra leið eftir ferilinn en flestir fótboltamenn.
Stephane Guivarc'h fór aðra leið eftir ferilinn en flestir fótboltamenn. getty/Mark Leech

Leikmaður heimsmeistaraliðs Frakka 1998 er í nokkuð óvenjulegu starfi. Hann selur nefnilega sundlaugar.

Stephane Guivarc'h var aðalframherji Frakka á HM á heimavelli 1998. Þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist að skora á mótinu stóð franska liðið uppi sem sigurvegari og varð heimsmeistari í fyrsta sinn.

Eftir HM keypti Newcastle United Guivarc'h. Hann náði sér hins vegar ekki á strik á Englandi og var seldur til Rangers skömmu síðar.

Guivarc'h lagði skóna á hilluna 2002. Hann var íþróttastjóri Guingamp til skamms tíma áður en hann tók U-beygju í lífinu.

Guivarc'h byrjaði nefnilega að vinna fyrir vin sinn sem á sundlaugafyrirtæki.

„Þar sem ég var atvinnulaus á þeim tíma sagðist ég ætla að rétta honum hjálparhönd og sautján árum síðar vinn ég enn fyrir hann. Ég er úti á örkinni alla daga, hlutirnir ganga mjög vel og ég er kominn heim á kvöldin. Þetta er gott líf. Ég þarf ekki að sækjast í að vera fyrir framan myndavélarnar til að líf mitt öðlist gildi,“ sagði Guivarc'h.

Hann varð markakóngur frönsku úrvalsdeildarinnar tvö ár í röð (1997-98) og vann frönsku úrvalsdeildina með Auxerre 1996. Guivarc'h spilaði fjórtán landsleiki fyrir Frakkland og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×