Innlent

Bíla­brunarnir á Akur­eyri: Karl­maður kærður fyrir hótanir í garð sak­bornings

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tveir bílabrunar urðu á Akureyri um miðjan september. Grunað er að um íkveikjur ræði.
Tveir bílabrunar urðu á Akureyri um miðjan september. Grunað er að um íkveikjur ræði. Vísir/Vilhelm

Foreldrar sautján ára stráks sem grunaður er um eina af tveimur meintum íkveikjum á Akureyri um miðjan september hafa kært karlmann fyrir hótanir í garð stráksins í aðdraganda brunanna. Eigendur bíla sem urðu fyrri íkveikjunni að bráð hafa enn ekki verið boðaðir í skýrslutöku vegna málsins. 

Aðfaranótt 8. september var lögreglunni á Akureyri tilkynnt um eldsvoða í bifreið í Naustahverfi. Sjö klukkustundum síðar var tilkynnt um annan bílaruna í sama hverfi. Lögregla handtók fimm manns í tengslum við málið, en talið er að um íkveikjur ræði. Í tilkynningu sagðist lögregla sjá fram á umfangsmikla rannsókn.

Lögreglan á Norðurlandi Eystra staðfesti við RÚV, sem greindi fyrst frá, að tveimur þeirra sem handteknir voru var sleppt daginn eftir og hinir þrír verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Einn þeirra er sautján ára drengur en hann var vistaður í úrræði á vegum barnaverndar. Drengurinn er grunaður um aðild að fyrri íkveikjunni en samkvæmt verjanda hans neitar hann sök. 

Sigurður Freyr Sigurðsson, verjandi stráksins, staðfesti í samtali við Vísi að enginn þeirra bíleigenda sem urðu fyrir fyrri brunanum hafi verið boðaðir í skýrslutöku og að bíll í eigu foreldra drengsins hafi brunnið. Foreldrarnir hafi nú engar upplýsingar um gang mála. 

Þá staðfesti hann að foreldrar drengsins hafi lagt fram kæru á hendur karlmanns fyrir hótanir í garð hans í aðdraganda brunans. Hótanirnar hafi bæði komið fram í samfélagsmiðlafærslu og í símtölum. Maðurinn á að hafa birt mynd af drengnum og sagt eitthvað í þá átt að hann ætti stefnumót með honum. 

Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi Eystra sagði lögreglu hafa talað við alla sem málið snertir, í samtali við RÚV. Þá gat hann ekki tjáð sig um hvort lögregla ætti eftir að boða einhvern í skýrslutöku á ný. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×