Fótbolti

Fátt kemur nú í veg fyrir að Bretar og Írar haldi EM í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bretland og Írland standa einir eftir af þeim sem vilja halda EM 2028.
Bretland og Írland standa einir eftir af þeim sem vilja halda EM 2028. Getty/Charlie Crowhurst

Bretland og Írland vilja halda saman Evrópumeistaramótið í fótbolta sumarið 2028 og þjóðirnir á Bretlandseyjum færðust nær því eftir fréttir dagsins.

Tyrkir ákváðu að draga framboð sitt til baka og vilja frekar einbeita sér að því að fá að halda EM fjórum árum síðar.

Þetta þýðir að framboð Breta og Íra er nú eina framboðið sem er eftir til að fá að halda Evrópumótið eftir fimm ár.

Næsta Evrópumót í fótbolta fer fram í Þýskalandi næsta sumar.

Tyrkir vilja aftur á móti halda EM 2032 í samstarfi við Ítali og það framboð hefur nú verið samþykkt af UEFA.

Bretar og Írar völdu í apríl tíu leikvanga til að hýsa leiki á mótinu. Meðal þeirra eru Hampden Park í Glasgow í Skotlandi, Principality Stadium í Cardiff í Wales, Aviva Stadium í Dublin á Írlandi og Wembley leikvangurinn í London. Það er ekki búið að klára að byggja tvo af leikvöngunum en það eru Bramley-Moore Dock, nýr heimavöllur Everton og Casement Park í Belfast á Norður Írlandi.

Englendingar hýstu einmitt úrslitaleikinn á EM 2021 en sú keppni var spiluð út um allt í Evrópu en lokaúrslitin voru síðan á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×