Körfubolti

Viðar Örn: Buðum hættunni heim

Gunnar Gunnarsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. VÍSIR/BÁRA

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, var ánægður með að hafa unnið Breiðablik 80-73 á Egilsstöðum í kvöld þótt frammistaða liðsins væri ekki góð. Höttur spilaði vel fyrsta kortérið og var þá komið með 10 stiga forskot en hrökk síðan í baklás. Það bjargaði sér svo í síðasta leikhluta.

„Við byrjuðum af krafti en urðum síðan kærulausir, hægir og varnaleikurinn lélegur. Þar buðum við hættunni heim. Undir lokin náðum við smá áhlaupi og komumst aftur í takt. Ég er vonsvikinn með frammistöðu okkar í dag, hún var ekki góð. En kannski er það þroskamerki á liðinu og félaginu að vinna leik þótt frammistaðan sé þetta slök.“

Litlar breytingar eru á Hattarhópnum milli ára þannig að í liðinu er kjarni sem spilað hefur lengi saman. Það kann að hafa hjálpað þegar það þurfti að klóra sig upp úr holunni í restina því Breiðablik var yfir þegar kom að síðasta leikhlutanum.

„Við höfum reynt að halda í kjarnann til að byggja upp liðsheild og bæta ofan á hann. Ég held það hafi skipt máli og þótt við höfum ekki sýnt góðan leik þá var þetta sterkur sigur.“

Höttur hefur unnið tvo fyrstu leikina og er þetta í fyrsta sinn í sögu liðsins í úrvalsdeild sem það nær þeim árangri. „Byrjunin gæti ekki verið betri og við verðum að fagna því. Ég er ekki leiður þótt það þurfi að laga frammistöðuna.“

Af einstökum atvikum í leiknum má nefna að á 15. mínútu fór Everage Lee Richardson, stigahæsti leikmaður Breiðabliks, úr lið á fingri. Ólafur Sigfús Björnsson, sjúkraþjálfari Hattar, kippti honum í liðinn og Viðar Örn aðstoðaði.

„Óli sá um þetta. Ég kom bara til að skyggja á og halda í höndina á Everage á móti. Það er eðlilegt að aðstoða eins og hægt er í svona aðstæðum. Everage er frábær leikmaður og það hefði verið sniðugt að leyfa honum að setjast á bekkinn en fegurðin við íþróttirnar felst í því að það verður að vera heiðarleiki í þeim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×