Fótbolti

„Maður fer ekki frá skipi þegar það er svona mikil ó­vissa“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Theodór Elmar í leik með KR í sumar.
Theodór Elmar í leik með KR í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Theodór Elmar Bjarnason skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt KR á dögunum. Hann sagði það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að vera áfram í Frostaskjólinu þrátt fyrir það óvissuástand sem þar ríkir.

Theodór Elmar var lykilmaður í KR á nýafstöðnu tímabili þar sem liðið endaði í 6. sæti. Það var því fagnaðarefni fyrir KR-inga að Elmar hafi ákveðið að taka slaginn áfram. Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall skrifaði hann undir tveggja ára samning.

„Ég er ekki alveg kominn nálægt því að leggja skóna á hilluna. Auðvitað er það pæling, ég er orðinn 36 ára og maður er farinn að sjá fyrir endann á þessu. Maður hugsar alltaf út í það en ég er í góðu standi og fullur eldmóðs og klár í næsta tímabil,“ sagði Theodór Elmar í viðtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur íþróttafréttakonu.

Theodór Elmar er uppalinn KR-ingur og kom því ekkert annað til greina en að vera áfram hjá KR. Hann segir ekki hafa komið til greina að fara á þessum tímapunkti þrátt fyrir þá óvissu sem þar ríkir en óvíst er hver mun stýra KR-liðinu á næstu leiktíð.

„Maður fer ekki frá skipi þegar það er svona mikil óvissa og gerir það þá ennþá erfiðara fyrir félagið. Ég er tilbúinn að taka þennan slag með þeim og við sjáum bara hvað setur. Ég er tilbúinn að taka sénsa í lífinu. Þetta er ekkert gríðarlega stór séns en engu að síður er þetta smá spenna,“ bætti Theodór Elmar við.

Allt viðtal Svövu Kristínar við Theodór Elmar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræða þau um framhaldið hjá KR og hver gæti tekið við liðinu eftir að Rúnari Kristinssyni var sagt upp.

Klippa: Theodór Elmar - Viðtal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×