Íslenski boltinn

„Drauma­starfið þitt er ekki alltaf á lausu“

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fótboltaþjálfari
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fótboltaþjálfari Vísir/Diego

Fót­bolta­þjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfs­son einn þeirra þjálfara sem er í leit að nýju starfi. Eins og gengur og gerist eru margir um hituna er kemur að þjálfara­störfum í fót­bolta­heiminum. Staðan þar er eins og á al­mennum vinnu­markaði en þó eru störfin sem eru á lausu, í efstu deild þar sem Siggi Raggi vill vera, ekki mörg.

Siggi Raggi lét af störfum sem þjálfari Bestu deildar liðs Kefla­víkur á síðasta tíma­bili og nú leitar hann að stað til þess að hefja næsta kafla á sínum þjálfara­ferli.

Hvernig er að vera í þessari stöðu?

„Þetta er hluti af því að starfa sem þjálfari,“ svarar Siggi Raggi. „Knatt­spyrnu­sam­band Evrópu var að birta niður­stöðu úr rann­sókn sinni og þar sést svart á hvítu að meðal starfs­tími þjálfara í efstu deildum Evrópu er 1,3 ár. Það lenda meira og minna allir þjálfarar ein­hvern tímann í því á ferlinum að vera án starfs. Stundum er það út af lé­legum árangri en stundum vegna þess að stjórnir fé­laganna hafa á­kveðið að gera breytingar. Það eru af­skap­lega fáir þjálfarar sem ná því að starfa lengi hjá sama fé­laginu.“

Það sé náttúru­lega mikill galli við starfið.

„Því á sama tíma eru fé­lög oft að tala um að vilja fara í upp­byggingu. En svo eru þjálfarar oft látnir fara innan skamms tíma. Þetta er eitt­hvað sem maður verður að geta tekist á við sem þjálfari. Maður verður að vera sveigjan­legur í þessu starfi. Drauma­starfið þitt er ekki alltaf á lausu. Þá þarftu að vera til­búinn í að flytja er­lendis, starfa úti á lands­byggðinni eða fara í deild neðar og skoða hvað sem losnar. Eða vera til­búinn í að vera at­vinnu­laus í lengri tíma og finna þér þá eitt­hvað annað.“

Þjálfara­starfið hafi breyst mjög mikið í gegnum tíðina.

„Aðal­þjálfara­starfið er orðið gríðar­lega viða­mikið starf. Hérna í gamla daga var bolta­poka og keilum hent í þig eftir að þú hafðir skrifað undir þjálfara­samning. Svo er þér bara óskað góðs gengis. Starfið er núna orðið þannig að þú ert að stýra fullt af fólki í teymi. Þú þarft bæði þekkingu og reynslu til þess.

Liðin eru komin með að­stoðar-, mark­manns- og styrktar­þjálfara. Stundum er þetta fólk í fullu starfi líka. Þá eru fé­lögin einnig farin að spá meira í leik­manna­málunum sínum. Það eru fengnir inn leik­grein­endur og tól tengd því. Þá koma inn í þetta marg­vís­legir þættir tengdir sam­skiptum við hina og þessa.

Þetta er orðið gríðar­lega viða­mikið starf og erfitt að gera það í dag án þess að vera í fullu starfi. Ef þú ætlar að gera þetta af ein­hverju viti og ná árangri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×