Innlent

Göngu­fólk villtist á Ingólfs­fjalli

Árni Sæberg skrifar
Björgunarsveitarfólk notaði breytta jeppa og fjórhjól.
Björgunarsveitarfólk notaði breytta jeppa og fjórhjól. Landsbjörg

Í gærkvöldi barst björgunarsveitum beiðni um aðstoð frá fólki sem gengið hafði á Ingólfsfjall milli Hveragerðis og Selfoss, og villst. Niðamyrkur var komið og fólkið treysti sér ekki til að halda áfram.

Þetta segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Björgunarsveitir úr Hveragerði og Grímsnesi hafi farið fólkinu til aðstoðar á sexhjólum og bíl. Björgunarfólk hafi komið að fólkinu norðarlega á fjallinu, flutt það á hjólum til móts við hlýjan björgunarsveitarbíl, sem hafi svo flutt það áfram niður af fjalli. 

Þar hafi lögreglan tekið við fólkinu og komið því áfram á sinn áfangastað.

Húsbíll rann út í krapaelg

Á sama tíma hafi björgunarsveit á Blönduósi verið boðuð út vegna húsbíls sem fór út af veginum á Vatnsskarði milli Blönduóss og Varmahlíðar. Bíllinn hafi runnið af veginum og út í krapaelg þar sem hann sat fastur, sem og fólkið sem í honum var.

Húsbíllinn situr enn fastur.Landsbjörg

Björgunarfólk hafi keyrt bíl björgunarsveitarinnar að húsbílnum þar sem hann var fastur, og aðstoðað fólkið úr honum og yfir í bíl björgunarfólks. Húsbílinn hafi þurft að skilja eftir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×