Innlent

Starfs­fólk fái greitt þrátt fyrir verk­falls­þátt­töku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Helgi Rúnar er forstjóri 66° Norður.
Helgi Rúnar er forstjóri 66° Norður. 66° Norður

Forstjóri 66° Norður segir misskilning að konur sem starfa hjá fyrirtækinu fái ekki greidd laun þrátt fyrir að leggja niður störf í tilefni Kvennaverkfallsins. Öllu starfsfólki hafi gefist kostur á að taka þátt í verkfallinu eftir hádegi. 

Fréttastofa ræddi í dag við tvo starfsmenn 66° Norður í Bankastræti, sem sögðu að aðeins væru greidd laun í tvo tíma, frá hálf tvö til hálf fjögur, eða meðan á samstöðufundi verkfallsins á Arnarhóli stæði.

Forstjóri fyrirtækisins segir málið þó á misskilningi byggt. 

„Það er náttúrulega þannig að sumt fólk hjá okkur er í fullu starfi og sumt fólk er að taka vaktir. Við greiðum fyrir þá vakt sem viðkomandi er að missa af,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66° Norður. 

Fólk í fullu starfi fái að sama skapi greitt, þrátt fyrir þátttöku í verkfallinu.

Öllum hafi gefist kostur á að taka þátt

Sendir hafi verið út upplýsingapóstar til starfsfólks fyrir helgi þar sem því hafi verið tjáð að öllum gæfist kostur á að leggja niður störf eftir hádegi í dag. Viðkomandi starfsmenn þyrftu að upplýsa yfirmann sinn um það fyrir klukkan 13 í gær.

Þá var kallað eftir því að starfsfólk virti hvert ákvarðanir annars um að taka þátt í verkfallinu eða ekki. 

Helgi segir að 66° Norður vilja standa fyrir kynjajafnrétti. Fyrirtækið sé með jafnlaunavottun til margra ára, og veiti konum brautargengi til stöðuhækkana til jafns við karla.

Fjöldi fyrirtækja og stofnana standi ekki jafn framarlega, en geti hins vegar „keypt sig út úr umræðunni“ eins og Helgi kemst að orði.

„Með því að borga kannski einhverja örlítið fleiri klukkutíma. Við erum með tíu búðir og það er gríðarlegt tjón ef við þurfum að loka þeim öllum, eða að stórum hluta. Við erum að reyna að vera fyrirmyndir fyrir aðrar stofnanir og fyrirtæki, og höldum því áfram. Við styðjum þennan málstað, eins og við sögðum fólkinu okkar og við hvern sem vill hlusta á það,“ segir Helgi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×