Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður Liverpool slóst við þjálfara sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mamadou Sakho gæti verið á förum frá Montpellier eftir uppákomu á æfingu liðsins.
Mamadou Sakho gæti verið á förum frá Montpellier eftir uppákomu á æfingu liðsins. getty/Marcio Machado

Mamadou Sakho, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er í vandræðum eftir að hafa slegist við þjálfara sinn hjá Montpellier á æfingu.

Samkvæmt frétt L'Equipe lenti Sakho og Michel Der Zakarian, þjálfara Montpellier, saman á æfingu í gær.

Sakho brást illa við og rauk af æfingunni þegar Der Zakarian dæmdi ekki aukaspyrnu fyrir hann á æfingunni. Þjálfarinn sagði við Sakho að hann réði því hvort og hvenær hann æfði og kallaði hann grenjuskjóðu. Þá fauk enn meira í Sakho sem greip í hálsmálið á Der Zakarian sem féll við.

Sakho hefur aðeins spilað sex mínútur fyrir Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni í vetur og óánægja hans hafði því byggst upp í einhvern tíma.

Svo gæti farið að hann léki ekki aftur fyrir Montpellier því félagið íhugar að rifta samningi hans. Samningurinn rennur út eftir tímabilið.

Montpellier fékk Sakho frá Crystal Palace fyrir tveimur árum. Hann lék áttatíu leiki fyrir Liverpool á árunum 2013-17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×