Körfubolti

Zoran Vrkic í sitt þriðja félag á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zoran Vrkic fór í lokaúrslitin með Tindastóli vorið 2022.
Zoran Vrkic fór í lokaúrslitin með Tindastóli vorið 2022. Vísir/Bára

Breiðablik hefur gert breytingu á leikmannahópi sínum eftir töp í þremur fyrstu leikjum liðsins.

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks sagði upp samningi sínum við Michael Steadman og samdi í staðinn við Zoran Vrkic.

„Steadman þótti ekki standa undir væntingum og var því ákveðið að segja upp samning við leikmanninn,“ segir í frétt í miðlum Blika.

„Steadman var með 9,3 stig og 5,7 fráköst að meðaltali í leik en hitti aðeins úr 39 prósent skota sinna og var aðeins búinn að fá fjögur víti samanlagt í fyrstu þremur leikjum liðsins.

Zoran Vrkic er þekkt stærð hér á landi eftir að hafa spilað bæði með Tindastól og Grindavík í Subway deildinni. Með Grindavíkurliðinu í fyrra var hann með 8,9 stig og 4,5 fráköst að meðaltali en tímabilið á undan skoraði hann 9,7 stig í leik með Stólunum.

Zoran bjó áfram á Íslandi þótt að hann hafi ekki fengið áframhaldandi samning hjá Grindavík.

Hann er því strax byrjaður að æfa með Blikaliðinu.

„Zoran hefur komið vel inn í liðið og ljóst að með þessum skiptum verður liðið smærra og ætti að geta spilað hraðari bolta sem hefur einkennt leik liðsins síðustu ár. Zoran er einnig góður varnarmaður og getur spilað vörn á sér stærri leikmenn, segir í frétt Blika.

Það eru líka fleiri góðar fréttir því Snorri Vignisson er byrjaður að geta æft og það styttist því í hans fyrsta leik í endurkomunni til Blika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×