Fótbolti

Tók klósett­pappír með sér út á völl eftir neyðar­legt at­vik síðast þegar liðin mættust

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Filip Đukić, markvörður Hvidovre, hefur húmor fyrir sjálfum sér.
Filip Đukić, markvörður Hvidovre, hefur húmor fyrir sjálfum sér. Lars Ronbog/Getty Images

FC Kaupmannahöfn lagði Hvidovre örugglega 4-0 á heimavelli þegar liðin mættust í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær, laugardag. Orri Steinn Óskarsson var meðal markaskorara en markvörður gestanna stal þó senunni með atviki sem átti sér stað fyrir leik.

Sigur FCK var aldrei í hættu. Orri Steinn hóf leik sem fremsti maður og skoraði fjórða mark heimaliðsins í sigri sem var síst of stór. Það var þó eins og áður sagði Svartfellingurinn Filip Đukić sem stal senunni en hann ver mark Hvidovre í dag eftir að hafa komið upp í gegnum unglingastarf FCK.

Hinum 24 ára gamla Đukić varð nefnilega brátt í brók þegar liðin mættust þann 18. ágúst síðastliðinn. Þurfti að gera hlé á leiknum er markvörðurinn skaust inn til að létta á sér. Það kom ekki að sök þá þar sem FCK vann 2-0 og Orri Steinn skoraði fyrsta mark leiksins.

Đukić er greinilega mikill grínisti og ákvað að taka allan vafa í leik gærdagsins en þegar hann kom út á völl var hann með vatnsflösku, líkt og venjulegt er fyrir markverði, sem og klósettpappír – svona ef hann skyldi lenda í því sama og síðast.

Spaugilegt atvik í marga staði en Đukić hefur eflaust ekki hlegið í lok leiks þegar Orri Steinn sá til þess að hann þurfti að sækja boltann í eigið net í fjórða sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×