Íslenski boltinn

Kristinn Jóns­son segir bless við KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jónsson fagnar einu af þremur mörkum sínum síðasta sumar.
Kristinn Jónsson fagnar einu af þremur mörkum sínum síðasta sumar. Vísir/Diego

Kristinn Jónsson mun ekki spila áfram með KR í Bestu deild karla í fótbolta og félagið hefur því misst tvo reynslubolta á stuttum tíma.

Kristinn tilkynnti um brottför sína á samfélagsmiðlum en hann hefur spilað með KR-liðinu frá því að hann kom þangað fyrir 2018 tímabilið.

Áður hafði KR misst annan reynslubolta, Kennie Chopart, sem ákvað líka að leita á önnur mið. KR-ingar eru vanir að hafa þessa tvo í bakvarðarstöðunum en Chopart var búinn að spila með KR frá árinu 2016.

KR endaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar í sumar og Gregg Ryder tók nýverið tók við Vesturbæjarliðinu.

„Eftir sex frábær ár í KR hef ég tekið þá ákvörðun að breyta til. Ég hef gefið allt í verkefnið og er gífurlega stoltur af þessum tíma í KR-treyjunni. Margt stendur upp úr, Íslandsmeistaratitillinn 2019, fólkið sem ég hef kynnst í kringum klúbbinn, stuðningsmenn og liðsfélagarnir í gegnum árin," skrifaði Kristinn á Instagram. Hann birtir með mynd af Íslandsmeistaraliði KR frá 2019.

Kristinn lék 26 leiki með KR í Bestu deildinni í sumar og var með 3 mörk og 5 stoðsendingar í þeim úr vinstri bakvarðarstöðunni. Á ferli sínum með KR hefur hann skorað 9 mörk í 120 leikjum og gefið 21 stoðsendingu.

Kristinn hefur verið orðaður við bæði Breiðablik og Fram en hann er uppalinn Blik og þá er fyrrum þjálfari KR, Rúnar Kristinsson, farinn að þjálfa Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×