Innlent

Á­minning til bæklunarlæknis felld úr gildi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ráðuneytið felldi ámininningu Landlæknis úr gildi.
Ráðuneytið felldi ámininningu Landlæknis úr gildi. Vísir/Vilhelm

Áminning Embættis landlæknis til bæklunarlæknis vegna tveggja aðgerða sem hann framkvæmdi hefur verið felld úr gildi af heilbrigðisráðuneytinu. Um var að ræða aðgerð á öxl og svo krossbandsaðgerð.

Læknirinn kærði ákvörðun Landlæknis til ráðuneytisins. Um er að ræða aðgerðir sem hann gerði í mars árið 2016 og í mars árið 2002. Maðurinn hafi framkvæmt aðgerð á öxl án þess að fyrir lægi ábending fyrir henni og auk þess gert mistök í krossbandsaðgerðinni. Hann hafi vanrækt að færa sjúkraskrá í báðum tilvikum.

Læknirinn byggir kæru sína á því hve langur tími hafi liðið frá því að fyrri aðgerðin hafi verið gerð. Útilokað sé fyrir hann að bregðast við athugasemdum við aðgerð sem framkvæmd hafi verið fyrir svö löngum tíma.

Þá segir læknirinn að ámælisvert hefði verið að framkvæma ekki hina aðgerðina á öxl sjúklingsins til að létta á verkjum hans. Vanræksla á færslu sjúkraskrár hafi átt að leiða til tilmæla um úrbætur og vísar læknirinn til meðalhófsreglunnar.

Landlæknir segir viðkomandi sjúkling sem gengist hafi undir krossbandsaðgerðina árið 2002 hafi verið í fullum rétti til að leggja fram kvörtun þar sem upp hafi komist um mistökin í myndatöku og speglun árin 2018 og 2019. Læknirinn hafi auk þess vanrækt hlutverk sitt sem bæklunarlæknir árið 2016 og því hafi ekki verið unnt að beita vægara eftirlitsúrræði en áminningu.

Í úrskurði sínum segir ráðuneytið að það sé mat þess sað aldur brotsins, vegna aðgerðarinnar árið 2002, sé slíkur að það verði vart lagt til grundvallar ákvörðun um að veita lækninum áminningu. Hið sama eigi við um þau mistök sem læknirinn hafi gert við aðgerðina.

Vegna aðgerðarinnar árið 2016 telur ráðuneytið að alvarleikastig þess máls nái ekki þeim þröskuldi að veita beri lækninum áminningu vegna þeirra atriði sem það varðar. Telur ráðuneytið það varða vanrækslu á færslu sjúkraskrár. Málið sé þó tilefni til þess að beina tilmælum til læknisins um að haga færslu sjúkraskrár í samræmi við lög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×