Erlent

Segir Gasaströndina líkjast graf­reit fyrir börn

Samúel Karl Ólason skrifar
Sært barn flutt á sjúkrahús á Gasaströndinni.
Sært barn flutt á sjúkrahús á Gasaströndinni. AP/Fatima Shbair)

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir Gasaströndina líkjast grafreit fyrir börn og kallar eftir tafarlausu vopnahlé.

Heilbrigðisráðuneyti Gasastrandarinnar, sem Hamas stýrir, segir rúmlega tíu þúsund manns hafa fallið í árásum Ísraela. Þar af séu rúmlega 4.100 börn látin.

„Gasaströndin er að verða grafreitur fyrir börn. Hundruð drengja og stúlkna eru sögð deyja eða særast á hverjum degi,“ sagði Guterres, samkvæmt frétt Reuters.

Guterres sagði á blaðamannfundi í dag að hernaðaraðgerðir ísraelska hersins á jörðu niðri og áframhaldandi loft- og stórskotaliðsárásir kæmu niður á óbreyttum borgurum. Skot hefðu hæft sjúkrahús, flóttamannabúðir, moskur, kirkjur og byggingar Sameinuðu þjóðanna, eins og neyðarskýli.

„Enginn er öruggur,“ sagði Guterres.

Hann sagði að á sama tíma væru Hamas-liðar að nota borgara sem hlífðarskyldi og héldu áfram að skjóta fjölmörgum eldflaugum að Ísrael.

Vilja ekki gera hlé

Ísraelar segja vopnahlé ekki koma til greina fyrr en Hamas-liðar sleppa öllum þeim gíslum sem þeir hafa í haldi. Talið er að þeir hafi tekið um 240 menn, konur og börn en óljóst er hve margir gíslar eru látnir.

Yfirvöld í Bandaríkjunum eru sögð hafa þrýst á ríkisstjórn Ísrael um að hætta árásum um tíma svo hægt sé að aðstoða íbúa Gasastrandarinnar. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, í dag en þeir munu ekki hafa náð samkomulagi.

Forsvarsmenn Hamas segja ekki koma til greina að sleppa gíslunum og að meðlimir samtakanna muni ekki hætta að berjast gegn Ísraelum.

Ísraelar hafa í raun klippt Gasaströndina í tvennt og umkringt Gasaborg, sem er í norðurhluta Gasastrandarinnar. Þar segja Ísraelar að Hamas haldi út nokkrar bækistöðvar og voru gífurlega umfangsmiklar árásir gerðar á borgina í nótt.

Ísraelar telja að höfuðstöðvar Hamas séu í göngum undir borginni og hafa sagt þær mögulega undir stærsta sjúkrahúsi Gasastrandarinnar.

Vígamenn Hamas-samtakanna og samtakanna Íslamskt Jihad hafa notað umfangsmikið kerfi ganga undir Gasaströndinni til að stinga upp kollinum fyrir aftan ísraelska hermenn, skjóta á þá og hörfa aftur. Þeir hafa einnig notað sprengjuvörpur gegn ísraelskum hermönnum og varpað sprengjum á þá úr drónum.

Talið er að hundruð þúsunda óbreyttra borgara séu enn í borginni.

Herinn segist hafa opnað flóttaleið fyrir fólk úr borginni en AP fréttaveitan segir fólk óttast að nota hana og þar að auki gera Ísraelar reglulega árásir á suðurhluta Gasastrandarinnar.

Áætlað er að um sjötíu prósent af þeim 2,3 milljónum sem búa á Gasaströndinni, einu þéttbýlasta svæði heims, hafi þurft að flýja heimili sín og þurfa margir að sofa undir berum himni. Matvæli, lyf, eldsneyti og vatn er af mjög skornum skammti.


Tengdar fréttir

Hvergi öruggt á Gasa

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir hvergi öruggt að vera á Gasa. Ísraelski herinn er sagður hafa drepið fleiri en tíu þegar loftárás var gerð á skóla á Gasa í morgun. Forsætisráðherra Ísraels segir vopnahlé ekki koma til greina fyrr en gíslum í haldi Hamas verði sleppt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×