Fótbolti

Grýttu platpeningum í „Dollarumma“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gianluigi Donnarumma tekur upp platpeningana sem kastað var í hann.
Gianluigi Donnarumma tekur upp platpeningana sem kastað var í hann. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Markvörðurinn Gianluigi Donnarumma mætti á sinn gamla heimavöll í kvöld þegar AC Milan tók á móti París Saint-German í Meistaradeild Evrópu. Stuðningsfólk heimaliðsins tók „vel“ á móti Donnarumma.

Donnarumma er enn aðeins 24 ára gamall en spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið AC Milan þann 25. október 2015. Hann var aðalmarkvörður liðsins allt til 2021 þegar hann samdi við PSG á frjálsri sölu.

Donnarumma spilaði 251 leik fyrir AC Milan en sumt stuðningsfólk félagsins vill meina að leikirnir hefðu átt að vera mun fleiri. Það telur að Donnarumma hafi á vissan hátt svikið AC Milan fyrir peningana í París.

Það er þess vegna sem fjöldi fólks mun mæta með platpeninga á leik kvöldsins í von um að geta látið þá rigna yfir ítalska markvörðinn.

Stuðningsfólk Milan stóð við stóru orðin og lét peningunum rigna yfir Donnarumma. Var nafninu hans snúið upp í orðagrín enda stóð „Dollarumma.“ Þá var hann einnig kallaður málaliði.

Markvörðurinn hefur til þessa spilað 86 leiki fyrir PSG en samningur hans við félagið rennur út sumarið 2026. Hann verður þá aðeins 27 ára gamall.

Leik kvöldsins lauk með 2-1 sigri AC Milan. Um var að ræða fyrsta sigur liðsins í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í ár. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Stuðningsmaður PSG stunginn í Mílanó

Stuðningsmaður Paris Saint-Germain sem fylgdi liðinu sínu til Mílanó á Ítalíu fyrir leik í Meistaradeildinni í kvöld fékk að kenna á því í slagsmálum á milli fylgismanna félaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×