Enski boltinn

Ten Hag: Enginn Casemiro fyrr en í fyrsta lagi um jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casemiro meiddist í leik Manchester United og Newcastle á Old Trafford en hann hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarið.
Casemiro meiddist í leik Manchester United og Newcastle á Old Trafford en hann hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarið. AP/Dave Thompson

Brasilíumaðurinn Casemiro verður frá í langan tíma ef marka má það sem knattspyrnustjórinn Erik ten Hag sagði á blaðamannafundi fyrir leik Manchester United og FC Kaupmannahafnar.

Casemiro er tognaður aftan í læri og verður frá keppni að minnsta kosti fram yfir jól. Casemiro meiddist í deildabikarleik á móti Newcastle á Old Trafford í síðustu viku, í leik sem tapaðist 3-0.

Casemiro verður því með Lisandro Martínez á meiðslalistanum næstu vikurnar.

„Ég býst við því að fá menn til baka af meiðslalistanum en meiðslin hjá Casemiro og Martinez eru verri. Ég býst ekki við því að fá þá til baka fyrir jól. Casemiro verður örugglega frá í margar vikur,“ sagði Erik ten Hag.

Ten Hag gat glatt stuðningsmenn United með því að ensku landsliðsmennirnir Harry Maguire og Marcus Rashford eru báðir klárir í slaginn á Parken í kvöld. Maguire lék í níutíu mínútur um helgina þrátt fyrir að fá tvisvar sinnum svima í leiknum en Rashford missti alveg af leiknum vegna meiðsla.

„Við fylgdum öllum reglum varðandi höfuðhögg, bæði í leiknum og eftir hann. Maguire er klár í leikinn. Það eru engin merki um heilahristing. Hann spilaði mjög vel. Rashford missti af einum leik eftir smá högg en hann er hundrað prósent klár í leikinn,“ sagði Ten Hag.

Manchester United er í þriðja sæti riðilsins, einu stigi á eftir Galatasaray sem er i öðru sæti. United þarf því helst sigur í kvöld ætli liðið sér í sextán liða úrslitiin. FCK er á botninum, tveimur stigum á eftir United en Bayern München er með fullt hús á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×